Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Vofan á Hrappsstöðum

Úr Wikiheimild

Á bæ þeim í Kræklingahlíð er á Hrappsstöðum heitir kom upp reimleiki eða draugur og var svo mikið mark að uppgangi vofunnar að nærri lá að fólkið mundi flýja bæinn; hún kom á gang hvert kveld þegar dimma fór; ýmist var hún úti á húsum eða hún gekk inn í bæinn og glettist svo við fólk, en vofan sýndist vera í stúlkumynd og ekki sáu hana nema þeir menn sem skyggnir vóru.

Þá var þjóðskáldið Þorlákur prestur Þórarinsson á Ósi; hann var kunnáttumaður eða með öðrum orðum mikið andríkur og vel lagið að setja niður afturgöngur og fyrirkoma illum öndum; var hann því sóktur og beðinn að koma fram að Hrappsstöðum til að finna þar nýkomnu stúlkuna. Prestur kom þar svo um dag og beið þar svo kvöldsins, en þegar dimmt var orðið kom stelpa inn í bæinn, en göngin vóru svo bein að sjá mátti eftir þeim. Þar á bænum var manneskja sem var ófresk og hana bað prestur að sýna sér vofuna því hann var ekki ófreskur og sagði hann sér það að meini að ei hefði verið skyggn. Síðan fóru þau ofan og sagði prestur henni að taka á sér hendina og benda vísifingri á vofuna og það gerði hún. Sagði prestur þá hún mætti fara inn, en hann gekk fram og svo út og var nokkra stund úti; svo kom hann inn aftur og sagði að vofan mundi valla gjöra mein af sér þar frá, og svo reyndist það; þó sáu ófreskir menn hana og var hún bundin við hæl fyrir utan tún, og stundum fældi hún hesta undir ferðamönnum svo við skaða lá.

En nokkuru síðar kom Magnús prestur Einarsson frá Tjörn í Svarfaðardal innan af Akureyri ásamt fleirum mönnum, en þegar þeir komu út hjá Hrappsstöðum var orðið myrkt. Þá segir prestur samferðarmönnum sínum að hann ætli að staldra þar lítið við, en þeir megi halda áfram og svo gjörðu þeir. Þá talar prestur til stelpunnar sem við hælinn var bundin og segir: „Hver hefur látið þig þarna, kinda mín?“ Þá var anzað: „Strákurinn hann Láki á Ósi.“ „Er þér ekki kalt að vera þarna á bersvæði, kindin mín?“ segir prestur og fór svo að hitta hana og síðan sást hún aldrei. Þessi Magnús prestur var andríkur mjög og ákvæðaskáld.