Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfabátur á Svínavatni
Útlit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Álfabátur á Svínavatni
Álfabátur á Svínavatni
Einhverju sinni einn vordag stóð hreppstjóri Þorleifur sál. Þorkelsson út á hlaðinu í Stóradal og sér hann þá bát á Svínavatni niður undan Sólheimum og fram undan hamri þeim er Beigull er nefndur (Beigaðarhóll, sjá Vatnsdælu). Á bátnum voru fimm menn, tveir voru í andófi, en þrír greiddu net. Þorleifur sál. horfði á þetta langan tíma og tíu heimamenn hans, en í því kom kaupafólkið í hlaðið. Horfðu þá allir af og sáu eigi bátinn framar. Þá var enginn bátur á bæjum í kringum Svínavatn.