Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfadans á nýjársnótt

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Tvo bræður greindi á um að huldufólk væri til. Annar hélt því fast fram að það væri, en hinn neitaði. Fór þessu svo fram um hríð þangað til sá er neitaði tilveru huldumanna reiddist og kvaðst skyldi burtu fara og ekki aftur koma fyrr en hann væri orðinn vissari hvort huldumenn væri til eða ekki. Síðan fór hann leiðar sinnar og gekk yfir fjöll og firnindi, hóla og hæðir og varð einkis vísari. Ekki er sagt af ferðum hans fyrr en hann kom aðfangadagskvöld fyrir nýjár á bæ einn og var þar heimilisfólk allt dapurt mjög. Ferðamaður spurði, hvað þeim stæði fyrir gleði. Honum var sagt að enginn vildi verða til að gæta bæjarins meðan heimilisfólk færi til tíða því þar hefði nú í langa tíma horfið gæzlumaður hverja nýjársnótt og vildi því enginn eftir verða til bæjargeymslu. Komumaður bað heimamenn vera ókvíðna og bauðst að gæta bæjarins og sagði sér mundi óhætt. Leið svo tíminn að menn fóru til tíða af bænum. Hann tekur sig til og nær fjöl úr þilinu fyrir ofan fremsta rúmið í baðstofunni og fer milli þils og veggjar, hleypti þilinu að mestu leyti aftur, en hafði þó rifu á fellingunum svo hann gat séð um alla baðstofuna. Hundur hans lá á pallinum.

Þegar hann hefur verið þar litla stund heyrði hann mannamál og göngu úti, og skömmu síðar er gengið í baðstofuna og er þar komið margt fólk. Hann sér að hundurinn er tekinnn og slengt niður við svo hvert bein brotnaði í honum. Því næst heyrði hann að komumenn töluðu sín á milli um að mannalykt væri í bænum, en þá sögðu aðrir það væri eigi kyn þar sem bæjarmenn væri nýfarnir til tíða. Þegar þeir höfðu umþóttað sig sá gæzlumaður, að þessir komumenn fóru með gullofinn dúk, mesta gersemi, og breiddu á borð, og allur borðbúnaðurinn að því skapi, skálar og diskar, ker og knífar, allt var af silfri. Síðan settist allur hópurinn við snæðing og fór þar allt siðsamlega fram. Drengur einn var látinn gæta dyra og hvenær dagur ljómaði og var hann ýmist úti eður inni. Hinn mennski maður tók eftir því að í hvert sinn sem hann kom var hann spurður hvað liði tímanum, en hann svaraði að langt væri enn til dags. Fór þá gæzlumaðurinn að rífa úr smátt og smátt úr gættinni á baðstofunni svo hann kæmist út ef á lægi. Þegar menn þessir höfðu snætt var maður og kona leidd fram. Þá kom og til þeirra enn þriðji maður sem gæzlumanni þótti sem prestur væri. Svo hófu þeir söng og voru enir sömu sálmar sungnir sem hjá oss er vant að syngja við hjónavígslu og var þar að öllu farið sem hjá vel kristnum mönnum er venja til. En þegar hjónavígslunni var lokið var tekið til að dansa og hélzt sú gleði um stund. Í því kom dyravörður huldumanna inn og var hann spurður hvað nú liði, en hann kvað enn langt eftir nætur. Í því gall gæzlumaður við er stóð langt að baki honum – því þá var hann kominn úr gættinni – og sagði: „Lýgur þú það því nú er þegar dagur á miðju lofti.“ Við þetta brá huldumönnum svo er að dansinum voru að þeir drápu þegar dyravörð sinn, hlupu burt og skildu allt sitt eftir. Gæzlumaður fór þegar eftir þeim og sá það seinast til ferða þeirra, að allir steyptu sér í vatn nokkurt er var kippkorn frá bænum. Snéri hann þá heimleiðis og tók saman allt það er huldufólkið hafði eftir skilið.

Skömmu síðar komu heimamenn frá tíðum og spurðu þeir gæzlumann hvert hann hefði nokkurs vísari orðið. Hann kvað það lítið mark hafa verið að því og sagði þeim hvernig farið hafði. Þóttust menn þá sjá í hendi að hinir fyrri gæzlumenn hefði látið huldufólkið sjá sig og það mundi hafa orðið þeim að fjörlesti viðlíka og hundinum í þetta sinn. Heimamenn gáfu gæzlumanni allt það er huldumennirnir höfðu eftir skilið. Að því búnu fór gæzlumaður að hitta bróður sinn og sagði hann honum upp alla sögu og það með að aldrei skyldi hann upp frá því rengja tilveru huldumanna. Tók hann svo við búi eftir foreldra sína og kvæntist og varð hinn mesti lánsmaður alla ævi. En ekki er þess getið að vart yrði við mannahvarf eftir það á bæ þeim er hann gætti forðum.