Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfahökullinn á Brjámslæk

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Álfahökullinn á Brjámslæk

Þegar Gísli forfaðir séra Eyjólfs Gíslasonar á Múla í Saurbæ var í Haga á Barðaströnd, höfðingsmaður mikill, bar so til einn sunnudag þá þar var embættað að barnsvagga var í kirkjuna borin þó ei sæjust þeir er báru. Kvenmaður fylgdi vöggunni er allir sáu. Þessi kvenmaður gengur þar að er Gísli bóndi var og hún tekur so til orða við hann: „Ég lýsi þig Gísli so sannan föður að þessu barni sem í vöggu þessari er sem ég er móðir þess.“ Gísli þverneitar því að hann sé þess barns faðir er hún til meinar. Þessi kvensnift sýnir sig reiðuglega og segir hann skuli þess gjalda að hann hafi neitað að hann væri faðir þessa barns og það hefði þar fyrir ei skírn hlotið. „Já,“ segir hún, „í tíunda lið frá þér skal altíð mæðusamt verða og illa á lítast, en það vil ég til leggja að betur skal út rekjast fyrir þeim er útlit og ætlan manna er.“ Hún grípur þá til áklæðis er lá ofan á vöggunni og kastar því inn í kórinn; hverfur síðan á burt og vaggan burt gripin. En úr ábreiðu þessari var gjörður hökull hvör eð gefinn var kirkjunni á Brjámslæk og er kallaður álfahökull.

Þega foreldrar séra Eyjólfs voru á Brjámslæk og séra Eyjólfur var fégra ára tók hann so harður verkur eður tak að ei sást annað ljósara fyrir augum manna en sá verkur er í hönum var mundi enda gjöra á lífdögum hans hér í heimi, og var þó allt reynt sem mönnum til hugar kom verk þann að lina og tjáði þó ekkert. Móðir hans madame Gunnhildur hafði gott vit á læknisdómum og hafði margur gott af hennar vitsmunum þar í og þá hún var búin að reyna allt það hún gat skipaði hún að sækja út í kirkju sokallaðan álfahökul, hvað og gjört var. Þá komið var með hann vafði hún hönum um barnið þar sem takið lá í því; brá þá so við að verkinn linaði og tókst með öllu í burtu.

Þetta er satt sagt, en hvört að hökullinn hefur haft þá náttúru frá álfum eður batastundin af guði ásett komin verið, það veit ég ekki. En þó má það sýnast að stjórnan hafi hér með verið að takverkurinn skyldi ei af neinu svía sem við hann var lagt utan af þessum hökli er frá huldufólki kominn var sem áður er frá sagt.