Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfakóngurinn í Seley

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Álfakóngurinn í Seley

Það var eitt sumar sem oftar að menn lágu til vers í Seley á Reyðarfirði. Þá bar það til þegar menn fluttu skreiðina í land að mikið varð eftir af skreið Hólmaprestsins í verskálanum. Gekk þá í ótíð svo skreiðinni varð ekki náð fyrr en um haustið því þá kom gott sjóveður. Var þá farið að sækja hana; fóru svo að bera úr skálanum ofan til skips. Kváðu þá skipverjar gaman að ganga á utanverða eyjuna og vita ef nokkuð hefði borið þar að landi. Bauðst þá einn til að fara á meðan hinir bæru ofan skreiðina. Hann fór svo, en hinir bera til skips; og allt í einu ýfist sjórinn svo að þeir fá naumast komið skreiðinni á skip. Fóru allir út á skipið og bíða eftir manninum, og þegar hann kom var orðið ófært að ná honum á skip fyrir brimi. Kölluðu þeir þá til hans og sögðu hann yrði að bíða, og skyldu þeir sækja hann daginn eftir ef fært yrði. Sáu þeir fyrir beztu að forða lífi sínu og héldu til lands, en hann stóð eftir bjargarlaus. Gekk þá í molludrífu. Gengur þá maðurinn í ráðleysu heim í skálann og var þar þar til kveld var komið. Fer hann þá að örvinglast og hugsar að sér sé nær að taka af sér lífið en svelta þar í hel og hljóp út úr skálanum, og sér hann þá glaða stjörnu. Hugsar hann þá að þetta muni ei himinstjarna í kafþykku veðrinu, og sýnist honum, þegar hann fer að sansa sig, það vera líkast ljósi í glugga. Hleypur hann þá litla stund þar til hann er kominn undir húsbyggingu svo væna sem líkast kóngshöll. Heyrir hann þá að sagt er inni: „Ja, stúlkur, ekki nema aumingja maðurin sem varð eftir á eyjunni í dag er kominn hér undir húsin; farið og sækið hann því ég vil ekki að hann deyi fyrir dyrum mínum.“ Að vörmu spori kemur til hans stúlka, leiðir hann inn og segir að hann skuli kasta af sér snjóklæðunum. Hann gjörir svo. Síðan leiðir hún hann upp afar háan stiga og inn í fagurt herbergi allt sett gulli og gimsteinum. Þar sá hann konur margar og bar ein langt af hinum. Hann kvaddi þær kurteislega en þær taka vel kveðju hans. Þá stendur sú hin fagra mey upp og leiðir hann inn í lítið en fagurt herbergi og setti þar fyrir hann vín og vistir og gekk síðan burt. Ei er getið um hvar honum var vísað til rúms um kveldið. Leið svo af nóttin, en um morguninn kemur hún til hans og kvaðst hún ei mega vera þar hjá honum til skemmtunar, en fær honum alslags skemmtunarverkfæri.

Leið svo veturinn til jóla. Á jólanóttina kemur sú hin fagra mær til hans og segir við hann að ef honum finnist að hún hafi gjört honum nokkuð gott þá skuli hann veita sér eina bæn sem hann megi ekki neita sér um, en það sé það að á morgun yrði haldinn dans og þá léti faðir sinn kalla sig út til að horfa á leikinn, skyldi hann þá ekki hafa neina forvitni né horfa út því hann gæti fengið sér nóg til skemmtunar inni. Hann lofar henni að hann skuli um ekkert forvitnast. Jóladagsmorguninn kemur hún til hans með vín og vistir og alls konar skemmtunarverkfæri og kveður hann og gengur burt, en að lítilli stundu liðinni heyrði hann söng og hljóðfæraslátt. Hann hugsar með sér hvaða ógna gleði þetta muni vera og óhætt sé sér að líta snöggvast út því það þurfi enginn að sjá, fer þá að klifrast upp á pílárana sem voru undir glugganum því hátt var upp í hann; lítur hann þá út og sér mikinn mannflokk sem er að dansa og leika á alls konar hljóðfæri. En í miðri mannþyrpingunni sér hann sitja kónglegan mann með kórónu á höfði sér og sinn kvenmann til hverrar handar honum. Virðist honum það muni drottning kóngs og dóttir – hana þekkti hann. Þorir hann nú ekki að horfa lengur út og fer frá glugganum. Gekk dansinn til kvelds. En þegar hún kom inn til hans um kveldið var hún fremur venju þegjandaleg, en segir við hann að illa hafi hann efnt það sem hann [hefði] lofað sér, að horfa ekki út, en svo muni hún hafa getað til séð að faðir sinn hafi ekki séð í þetta sinn. Líður svo fram að nýjári að ekkert bar til tíðinda.

Á nýjársnótt kom hún til hans og segir við hann að á morgun fari hún með föður sínum að horfa á dansinn, og skuli hann þá reynast sér trúrri en um jólin, með að hafa enga forvitni. Lofar hann því til halds og trausts að hann skuli nú ekki horfa út. Ber hún þá til hans mat og vín og margslags skemmtun og fór síðan burt. En er morgnaði heyrði hann nú enn nú meiri glaum og gleði úti en um jólin. Segir hann þá við sjálfan sig að ekki skuli hann nú horfa út því það sé það sama og um jólin, og líður svo langt á dag að hann situr kyrr. Fer þá forvitnin að kvelja hann að vita ekki um þá miklu gleði og lítur hann út og sér að dansinn er miklu skemmtilegri en hið fyrra sinn því margir glæsilegir riddarar leika fyrir kóngi og drottningu. Kippir hann sér þá frá glugganum, en það sá hann að enginn leit upp í gluggann til hans, og leið svo til kvelds. En er hún kom inn um kveldið var hún mjög stygg og átaldi hann um að hann hefði svikið sig. Þó spillti þetta ekkert á milli þeirra því hún var honum jafngóð eftir sem áður. Líður nú svo veturinn til páska.

Á laugardaginn fyrir páska kemur hún til hans og lætur vel að honum og biður hann nú að vera ekki forvitinn á morgun þó honum finnist mikið um gleðina því ef faðir sinn verði þess var að hún hafi þar karlmann hjá sér þá kosti það sitt líf. Á páskadagsmorguninn kemur hún til hans, færandi honum allt er hann hefði getað kosið, kveður hann og gengur burt. Kemur þá upp glaumurinn sem fyrr. Líður svo fram eftir deginum; fer honum þá að leiðast einveran og gengur hann burt úr herbergi sínu og í næsta herbergi því hann hélt að hún mundi ei verða vör við þó hann liti þar út, lítur þá snöggsinnis út og sér það sama og um nýjárið. Því næst fór hann inn í herbergi sitt þar til hún kom inn um kveldið. Var hún þá stygg við hann, segir hann hafi svikið sig í dag sem fyrr, en ekki viti hún hvert faðir sinn hafi orðið nokkuð áskynja um hann, en styggari hafi hann verið við sig en vant hafi verið, „og ekki ætlaði ég,“ sagði hún, „að þú mundir reynast mér eins illa og þú hefur gjört, og mun svo fleira á eftir fara fyrir þér.“ Leið svo fram til sumarmála.

Á vetrarnóttina síðustu kom hún til hans og segir við hann að það sé sumardagurinn fyrsti á morgun og þá komi menn úr landi að sækja hann, og skuli hann fara snemma til skálans; en einnar bónar ætli hún að biðja hann ef honum þyki nokkuð til koma að hún hafi haldið í honum lífinu í vetur, en það sé að gangast við barninu sem hún gangi með eftir hann því það standi á lífi sínu ef hún geti ekki feðrað það, þá láti faðir sinn drepa sig. En ef hún geti feðrað barnið þá mundi hann ekki drepa sig, og hún beiðist ekki annars af honum ef hann reynist sér trúr í þessu. Hann lofar henni því og segir að sér skuli aldrei verða það að gangast ekki við því, sér sé það útlátalaust þegar hann þurfi ekki að hafa meira fyrir því. Kveður hann hana þá og þakkar henni fyrir allar velgjörðir við sig um veturinn og býr sig árdegis á stað morguninn eftir, og er hann er ei langt kominn fer hann að líta aftur til hallarinnar og sér hann þá ekki annað en urðir og steina suður á eyjunni; fer hann þá til skálans. Veður var blítt og sjóveður gott, og er ei langt liðið á daginn áður en hann sér skip koma úr landi. En þegar skipverjar komu að eyjunni gengur hann á móti þeim. En þegar þeir sjá hann verða þeir hræddir því hann var mjög feitur og digur, og hugsa þeir hann afturgenginn því þeir gjörðu ráð fyrir að hann hefði eflaust dáið um veturinn, og þorði enginn að tala til hans, því heldur að koma á land til hans. Þó varð það um síðir að formaðurinn fór á land og spyr hvert hann sé lifandi maður eða afturganga og sá hinn sami sem orðið hafi eftir í eyjunni um haustið. Hann kvaðst vera samur og hann hafði verið í haust þegar þeir hefðu skilið sig þar eftir. Hinn sagðist ekkert skilja í hvernin hann hefði lifað þar svo lengi matarlaus. Eyjamaðurinn sagði, að það mundi ekki vera kostverri þönglarnir í Seley en vatnsgrautarnir á Hólmum. Ekki vildi hann segja þeim neitt meira; fór hann þá í skip til þeirra og reru þeir svo inn að Hólmum. Flesta undraði er menn sáu hann lifandi aftur kominn, og var hann að spurður á marga vegu hvernin hann hefði lifað um veturinn, en enginn fékk meira hjá honum en þeir út í eyjunni.

Að áliðnu sumri var það einn sunnudag að veður var gott og margt fólk kom til kirkju, og ætlaði vinnumaður að vera í kirkju um daginn. En þegar presturinn er kominn í kirkjuna og so allur kirkjusöfnuðurinn vita menn ei fyrr til en barnsvagga er komin inn að altarinu, og var gullsaumaður hökull breiddur yfir barnið, en enginn sést maðurinn nema menn sáu að fögur kvenmannshönd var á vöggustokknum; allir urðu hissa og horfir hver á annan, en prestur tekur til máls og segir að þetta barn vilji fá skírn og sé sjálfsagt einhver í kirkjunni við það riðinn og ýtir því helzt að vinnumanni sínum og segist halda að hann hafi skilið þetta eftir í Seley í vor; en vinnumaður afsalaði sér því, en prestur sagðist vilja skíra það undir hans nafni, en vinnumaður þverneitaði og sagðist ekkert vilja hafa með það. En prestur sagði það vissu allir að hann hefði ekki lifað í eyjunni nema hann hefði notið mannhjálpar að, en vinnumaður sagðist aldrei við barninu ganga og fyrirbauð prestinum að skíra það undir sínu nafni. Var þá vöggunni kippt burt og hvarf hún samstundis, og í því kom upp mikill grátur og heyrðu menn hann fara út úr kirkjunni. Fór þá prestur út á eftir og menn með honum. Heyrðu menn þá grátinn og ekkann líða ofan til sjóar, en á kirkjugarðinum lá hökullinn og var hann brúkaður á Hólmum lengi þar eftir. Allir féllu í forundran, en þó féllst prestinum mest um þenna atburð. En seinna kom fásinna á vinnumanninn. Spurði þá prestur hann að orsökinni, en hann sagði þá upp alla söguna og það hefði verið kóngur og dóttir hans er hann dveldi hjá um veturinn, og iðraði sig þess alla daga að hann hefði ekki gengizt við barninu. Eftir þetta varð vinnumaður aldrei samur um ævi sína, og lýkur hér so sögunni af huldufólkinu í Seleynni.