Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfakýr í fjósi

Úr Wikiheimild

Á einum bæ bar svo við að þegar fjósamaður kom í fjósið voru allar kýrnar lausar og honum fundust talsvert fleiri naut en vera átti, en sá ekkert því að myrkt var. Hann ryðst nú um fast og verður skapbrátt svo að hann bítur í eyrað á einni kúnni. Þegar hann sér að hann fær engu skipulagi á komið hleypur hann eftir ljósi, en þegar hann kemur með það voru baulur búnar að bása sig, en á flórnum stóð kýr ókennd með blóðugt eyra. Kýrin var svo tekin af húsbændunum til eignar og hirðingar og reyndist mesti dánumannsgripur. En í hvört skipti er hún bar mátti enginn vera hjá henni eins og siður er til og þó var kálfurinn ætíð kominn karraður inn í hlöðu eða moðbás. Allt eins þegar hún gekk, þá hvarf hún úr fjósinu og kom svo aftur.