Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfakletturinn hjá Æsustöðum

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Á Æsustöðum í Eyjafirði bjó eitt sinn kona sú sem Anna hét; Kleofas hét maður hennar. Skammt frá bænum var klettur einn stakur og kringum hann grasflöt falleg. Börn Önnu léku sér oft á flötinni við klettinn þá veður var gott. Einn dag um sumartíma hentu þau gaman að því að kasta steinum að klettinum, en meðan á steinkastinu stóð sókti svefn svo mikill á Önnu móðir þeirra heima í bænum að hún lagði sig og sofnaði skjótt og dreymir hana að henni þykir kona ókennd koma til sín og kveðja sig til farar með sér. Henni leizt konan sorgbitin; hún þykist fylgjast með henni að klettinum sama, við hvorn börnin léku, og sem þær koma þar opnast kletturinn og leiðir konan Önnu inn með sér og að rúmi hvar barn lá í hulið klæðum. Konan dregur klæðin af og sýnir Önnu barnið og sér hún að það er handleggsbrotið. Segir hún að þar sjái Anna hvorn skaða barnið hafi hlotið af steinkasti barna hennar og biður hún banni þeim leiki kringum klettinn. Að svo mæltu leiðir hún Önnu út og lýkur aftur klettinum. Vaknar Anna síðan; eru börn hennar þá heim komin. Hún spyr hvar þau væri og hvern leik þau hefðu framið. Þau segja af hið sanna. Hún segir þeim draum sinn og biður þau hætti þar leikum sínum. Var það þá fyrir satt haft að álfar byggju í kletti þessum.