Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfar gefa graut og rjóma

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni var smalamaður á ferð að leita kinda; hann var orðinn þreyttur og örmagna af sulti, en þorði ekki að fara heim að bæ sínum því hann átti strangan húsbónda og vissi sér vísa hirtingu ef hann kæmi heim við svo búið. Smalamaður gekk með klettum nokkrum og sagði sona við sjálfan sig: „Ég vildi ég hefði nokkuð að éta, þá mundi ég geta umflúið hirtinguna hjá honum húsbónda mínum,“ og í sama vetfangi kom grá hönd loðin út úr klettinum og rétti að manninum grautarask og rjóma í öðru íláti. Smalamaður tók við hvorutveggju og át grautinn úr askinum, en hafði rjómann út á. Síðan kom höndin út aftur þá hann var búinn, og tók við askinum og ausunni sem rjóminn var í. En smalamaður fór af stað og fann kindurnar sem hann var að leita að, kom með þær heim síðan og varð fyrir hrósi í stað hirtingar sem hann hefði fengið ef hann hefði komið kindalaus. Og upp frá þeim degi óx smalamanni þessum fiskur um hrygg svo hann varð mesti merkismaður.