Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfarnir í Drangey

Úr Wikiheimild

Einu sinni bjó megandi bóndi að Höfða á Höfðaströnd sem ekki er getið um að hafi átt neitt barn með konu sinni, en dreng fóstraði hann upp sem honum þókti mikið vænt um og sem þótti vera mjög frábær í uppvexti. Svo bar við aðfangadag jóla þegar téður drengur var á fjórtánda ári að sækja átti sauði fram í Drangey er slátra átti til jólanna. Þá fekk drengur það innfall að hann biður fóstra sinn óaflátanlega að lofa sér að fara fram í eyjuna að sækja sauðina. Bóndi var tregur til, en sagði loksins ef piltarnir leyfðu honum að fara með skipti hann sér ekki af því, og síðan lögðu þeir frá landi og tókst ferðin vel, þar til þeir vóru búnir að smala féð og taka það er þeim var falið á hendur að velja til slátrunar, báru svo á skip, en létust þá hafa gleymt vettlingum upp á eyjunni. Drengur bauðst til að hlaupa upp eftir vettlingunum og á meðan héldu þeir frá eyjunni, en skildu piltinn eftir er sá á eftir þeim með tárin í augunum, en þegar hann sá þeir voru komnir svo sem miðja vega milli lands og eyjar brast í stórhríð svo hann missti sjónar á þeim og taldi þá frá, og sjálfur bjóst bann við að deyja þarna úr hungri og kulda. Þegar hann var búinn að horfa sér til leiðinda á hvernin ein holskeflan eftir aðra sprungu á skerjunum án afláts svo hann þóttist ekki vel kominn þar sem svo er lítið undirlendi, og forðaði sér því upp á eyjuna að leita sér að skýli hvar hann gæti borizt fyrir; [var] afar mikið frost og snæfok; varð honum reikað þangað sem fyrir honum varð skáli eða kofi sem byggður hafði verið handa fé til skjóls í kafaldshríðum. Gekk hann þar inn og sópaði saman hálmi og fól sig þar og hlúaði að sér sem honum var mögulegt. En þegar dagsett var heyrir hann hark mikið úti hjá skálanum; þar næst heyrist honum ganga ekki allfáir menn inn í skálann og heyrir hann að sett eru niður borð og fæða á borin og svo er tekið til snæðings og drykkju. Dettur honum til hugar að sé þetta gott og örlátt fólk kunni það að sjá á sér aumur og snara til sín bita ef hann láti vita af sér, svífur því hastarlega á fætur; sér hann þá alslags fæðu á borð borna og fólk á öllum aldri, neyttu þess sem framreitt var. En þegar það sér dreng drífur það allt út og skildi eftir allt sem á borðunum var, vín og vistir, og sá öngvan mann framar. Tók þá piltur til matar og hafði nógan forða þangað til á nýársdag og kom aldrei út úr kofanum þann tíma.

Nú víkur sögunni til þeirra sem sauðina sóktu að þeir náðu með naumindum landi, en heimilisfólkið saknaði drengs ekki fyr en á jóladagsmorguninn að átti að fara að syngja. Spyr bóndi hvert drengur atli ekki að syngja með sér eins og hann sé vanur. Þá er eins og þeir vakni af svefni sem skildu drenginn eftir, og kváðust hafa gleymt honum því hann hefði ekki verið nærstaddur þegar þeir hefðu látið frá eyjunni. Bónda bregður illa við og veitir þeim átölur, en hér varð við að sitja. Hríðina birti ekki fyrri en á nýársdag. Þá réðist bóndi fram í eyjuna og sér hvergi neinn mannsferil svo hann telur sjálfsagt fósturson sinn frá, reikaði þó þangað sem kofinn stóð. Þá heyrir drengur (sem nú [var] að taka sér bita af því er honum fénaðist á jólanóttina) málróm fóstra síns og tekur silfurstaup og gengur út að fagna kallinum og sýnir honum staupið, og fagnar kallinn fóstursyni sínum innilega og þykist hann úr helju heimt hafa. Segir drengur þá upp alla söguna. Síðan fara þeir inn í skálann, en gripu nú í tómt því þá var allt horfið svo þeir héldu ekki eftir nema silfurstaupi því er drengurinn hélt á þegar hann heyrði mannamálið og gekk út.