Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfarnir í Snartartungu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Álfarnir í Snartartungu

Það var einhvurju sinni þá er Eggert Jónsson bjó í Skálholtsvík að hann sendi vinnukonu sína er Kristín heitir ásamt öðru fólki vestur á Snartartunguheiði til að afla sér fjallagrasa (er mjög hefur tíðkað verið á Íslandi). Lá þá leið þess um í Snartartungu og sagði konan þar er hét Sigríður það skyldi ekki bregðast ókunnuglega við þó eitthvað týndist eða hvyrfi hjá því ef það lægi í Presthólunum sem eru norðanhallt á heiðinni og kunnugir menn þekkja deili á, því það hefði oftast eitthvað horfið hjá grasafólki sem þar hefði legið, enda þar heima á bænum hvyrfi oftast eitthvað á hvurju ári. Og einu sinni er börnin þar voru að leika sér í kringum fjárhúsin á sléttu hólunum sem þar eru [bar svo við] að konuna dreymdi eina nótt: Henni þókti koma til sín kona sem beiddi hana láta ekki börnin vera með sona miklum hávaða í kringum bæinn sinn að börnin sín hefðu ekki næði. Og litlu þar á eftir er þau á sömu leikvöllum sínum voru að ýmsri skemmtan sáu þau mann koma til sín er þau ekki þekktu og urðu þess vegna hrædd, einkanlega eitt þeirra (sem Jón heitir og er nú bóndi á Ballará á Skarðsströnd) sem hann elti lítið eitt. Þau lögðu samt af að dansa mikið á þessum hólum eða kringum húsin. Þessi sami Jón varð tvívegis var við stúlku sem vildi fá hann til sín og í seinna sinn er þau fundust kvaðst hún mundi skilja öðruvísi við hann í þriðja sinni en þau hefðu skilið hingað til, en ei vita menn þau hafi síðan fundizt. Enda var þetta orð og að sönnu, grasafólkið missti úr tjaldstaðnum nýtt hrosshársreipi er þó ásamt öðrum farangri var látið inn í tjaldið. Þessi Kristín er nú kona á Klúku við Bjarnarfjörð.