Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfarnir hjá Staðarhóli
Álfarnir hjá Staðarhóli
Á kirkjustað einum var gamall maður einn úti staddur á gamlaárskvöld; veðrið var kyrrt og gott og glatt tunglskin og jörð næstum því snjólaus. Verður honum þá litið ofan á langa brú sem var fyrir neðan túnið; sýndist honum þá koma stór mannahópur ríðandi að brúnni og ríða síðan yfir hana. Mennirnir vóru bæði karlar og konur og allir vel búnir tilsýndar, en hestarnir sýndust honum stærri og gervilegri en þeir er hann hafði vanizt. Þegar hópurinn var kominn yfir brúna nemur hann staðar, en einn maðurinn fer af baki og snýr aftur og fer sem hann sé að leita að einhverju. Þegar heimamaður sér þetta hleypur hann til kirkju, tekur í klukku og hringir; við það hvarf allur hópurinn. Morguninn eftir í birtingu gengur áðurnefndur maður ofan á brúna þar sem hann sá manninn leita kvöldinu fyrir og finnur þar mikinn og mjög haglega gjörðan hring úr kopar. Var hringur þessi látinn í kirkjuhurðina þar á staðnum og hefir hann verið þar lengi, og það man ég að í ungdæmi mínu var sagt að sami hringur væri enn í kirkjuhurðinni, en staður þessi er á Staðarhóli í Saurbæ í Dalasýslu.