Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfasíki

Úr Wikiheimild

Í fyrndinni var kona sú í Rauðuskriðum er menn vissu ekki um hvaðan var kynjuð eða hverrar ættar væri. Hún var drengur góður, fríð sýnum og hafði mestu ást af bónda sínum. Gat hún sér jafnvel hylli hvers manns, en jafnaðarlega var hún fálát og það þókti undarlegt í fari hennar að hún vildi ekki kirkju sækja, og þókti bónda hennar mein að því. Ein sat hún heima hverja jólanótt meðan heimilisfólk var við tíðir og grunaði menn að hún færi þá að heiman þó enginn vissi hvert.

Einu sinni bar svo við að konan segir – og heyrði allt heimafólkið – að þeim mundi hún gefa Rauðuskriðu er sér gæti sagt hvar hún væri á jólanótt. Lét enginn sem hann gæfi því gaum. Líða nú dagar til jóla og bjóst allt fólk í Rauðuskriðum til tíðaferðar austur um hálsinn til Múla nema vinnumaður einn sem Þorsteinn hét; hann lá í rekkju og kvaðst mjög kenna sjúkleika. Þegar fólk var allt farið af heimilinu fór konan og sópaði allan bæinn; síðan tók hún laugar og klæddist aftur, gekk svo til útiskemmu, lauk upp kistu einni er hún átti, tók þar upp möttul einn og dúka tvo og stingur undir hönd sér, en tekur á rás niður frá bæ í Rauðuskriðum. Vinnumaður sem hafði gát á húsmóðir sinni og hafði læðzt á fætur rann þegar eftir henni, en dimmt var. Fór hún þangað til hún kom að síki einu norðvestur frá bæ, en er hún kom á síkisbakkann tók hún báða dúkana, lét annan eftir á bakkanum, en breiddi hinn á vatnið og steig út á. Leið hún svo á hvarf í vatnið. Kom þá vinnumaður á síkisbakkann, greip dúk þann sem eftir lá og breiddi hann eins og hún gjörði á vatnið og steig svo á og leið niður í vatnið eftir henni. Fóru þau þannig alllengi unz þau komu á slétta grund; þá klæddist konan í kyrtil sinn og tók dúkinn undir hönd sér. Hann tók og með sér dúk þann er hann hafði. Hún fór svo lengi eftir fögrum völlum og kom loksins að bæ miklum og reisuglegum; stóð þar úti fjöldi fólks og fögnuðu henni allir, en enginn mundi sjá Þorstein. Í mannþyrpingunni var einn maður sem bar af öðrum; hann var hinn tíguglegasti og þó við aldur; stóðu mörg börn hjá honum; heilsaði hún honum og þeim með kossi og leiddi hann hana þegar inn. Var þar sem í höll væri og hófst þar gleði og skemmtan nóg. Settist hinn aldraði maður í öndvegi, en konan gekk til matbúrs og tók til matarskammtar; sneiddi hún niður hangið kjöt og var það bezta fæða. Það var síðan borið á borð og margir aðrir réttir sem bæta þóktu. Líka var bezti bjór fram borinn. Konan sezt þá í öndvegi hjá hinum aldraða manni og mátti sjá að þessi var maðurinn hennar í undirheimum. Sátu börnin þar út í frá. Til fagnaðarauka var leikið á hljóðfæri meðan setið var undir borðum. Þegar menn höfðu um stund etið og drukkið og gjört sig glaða voru borð upp tekin. Alla þessa stund stóð Þorsteinn utar við dyr og sá og heyrði á, en enginn sá hann. Náði hann einni rifsneið af hangikjöti og stakk undir klæði sín.

Nú sló þögn og ógleði yfir alla og fór konan að kveðja fólkið og svo börnin, en sá aldraði maður fylgdi henni á leið. Síðan kvöddust þau og skildu með klökkva miklum. Hvarf hann þá heim til sín, en hún fór hinn sama veg til baka og kom að síkinu í undirheimi; lagði hún þar klæðið á eins og í fyrra sinni og leið svo upp á bakkann ofanjarðar. Eins gjörði Þorsteinn; lét hann dúkinn eftir verða er hann kom upp, og hvarf heim. En konan fór að afklæðast möttli sínum og kom hún seinna og lagði gripi sína aftur í kistu niður. Að því búnu gekk hún til bæjar og tók til að skammta fólkinu hátíðamat. Kom þá bóndi og hjú hans heim frá tíðum. Þegar bóndi sat að mat sínum og tók til áskurðarins – það var af feitri sauðarsíðu – mælti hann að óvíða mundi vera jafnfeita sauðarsíðu að sjá sem þá er hann hélt á. Þá segir Þorsteinn vinnumaður: „Þá hefir ég séð aðra miklu betri,“ – og lagði rifsneiðina sem hann tók fyrr með sér um kveldið á borðið fyrir bónda. Þá mælti konan: „Hvaðan hefir þú þessa síðu?“ Vinnumaður anzaði: „Þér skömmtuðuð hana í kvöld í undirheimum húsmóðir góð.“ Skipti konan þá litum og mælti: „Óþörf var forvitni þín, en þó skulu ummæli mín standa um Rauðuskriðu, og þó fylgi það jafnframt að hún lánist aldrei eiganda sínum til ábúðar.“ Gekk konan þá burtu og hvarf og sást ekki síðan. Hafa menn það síðan fyrir satt að álfkonuummælin standi um Rauðuskriðu og þrífist ekki eigandi hennar ef hann býr á henni. Þar er Álfasíki kallað fyrir neðan bæ enn í dag.