Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkona læknar barn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Álfkona læknar barn

Það bar til 1790 á Skarðsströnd á bæ þeim er heitir Vormsstaðir að barn hjónanna þar varð sjúkt. Barnið hét og heitir Ingibjörg. Þar með tók það strangur verkur so sár að það gat ei af sér borið, og varð ei linaður, og var til reynt sem varð hann að lina. Móðir barnsins gekk so frá því, mun ei hafa getað heyrt kvein þess, en hitt fólkið var kyrrt eftir aðgjörðalaust, nokkuð lítið frá þessu veika barni. En þegar Halldóra, móðir barnsins, var nýburtgengin, þá sá það fólk er uppi var á loftinu að hún kom aftur strax og gekk til þess veika barns, farandi höndum um það. Fóru þá að lina hljóð barnsins; var hún hjá því litla stund; gekk síðan á burt þá barnið var hljóðalaust orðið. Þar strax á eftir kom Halldóra, móðurin, og sagði: „Nú er henni Ingibjörgu farið að batna.“ Fólkið sagði: „Já, það var orðið það, þá þú fórst á burtu frá því núna strax; þá þú varst búin að halda á verknum er í því var þá batnaði því.“ „Það hef ég ei verið,“ sagði hún; „ég hef ei upp komið síðan ég fór ofan, þá hún var með hljóðunum, fyrri en ég kom núna.“ „Það var þó kvenmaður eins klæddur sem þú sem kom til hennar,“ sagði fólkið, „og fór höndum um hana so hún var orðin hljóðalaus þá hún fór frá henni, og er hún rétt nýgengin í burtu, en þú komst rétt strax þá hún fór ofan.“ Halldóra sagði: „Það er þá ekki að tala hér um fleira; það hefur verið sú hulda nábýliskona mín sem guð hefur brúkað til þess að lina verkina í barninu;“ var þá og barninu albata að verknum og fann ei síðan til hans.