Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkona reidd yfir á
Álfkona reidd yfir á
Í Bárðardal fyrir hér um 20-30 árum bar það til er hér skal sagt: Frá bæ fyrir vestan fljótið fór kvenmaður til grasa austur yfir fljót og upp þar á heiði, því þar var þá allgóð grasaheiði, en fjallagrös fengust ei þar vestan fljóts, en nálægt þeim tíma sem von var til að kona þessi kæmi til baka sást kvenmaður koma á fljótsbakkann móts við Halldórsstaði, sem kallaði svo heyrðist heim að bæ; en svo hafði verið ráð fyrir gert að grasastúlkan kæmi máske að fljótinu og kallaði og þá skyldi sækja hana á hesti. Nú þegar þessi stúlka sást við fljótið kenndust þeir er sáu við hver hún væri og þóktust þekkja þar komna stúlkuna úr grasaheiðinni og var kvenmaður sem fljótið þorði að ríða send að sækja hana ríðandi með hest í taumi. Síðan fór nú þessi sendistúlka leiðar sinnar að vaðinu á fljótinu og sá alltaf hina stúlkuna á bakkanum móts við sig og þóktist kenna. Nú ríður hún yfir fljótið og horfir á stúlkuna á bakkanum, en þegar hún var komin nærri yfir fljótið leit hún snöggvast af stúlkunni, en þegar hún leit aftur við var hún með öllu horfin hvað hinni sendu stúlku kom næsta óvart, en þó hún leitaði starandi í allar áttir kom fyrir ekki, og er hún gat einkis orðið vör reið hún heim að Lundarbrekku að spyrjast fyrir hvert grasastúlkan hefði þar ekki komið því þar átti hún að koma þegar heim færi, og frétti hún þá að hún væri kyr við grösin upp á heiðinni. Þegar hinni sendu stúlku þannig varð öll leit sín og ómak að engu sneri hún heim aftur full undrunar yfir þessari missýning. En um nóttina þegar hún var sofnuð dreymir hana að til hennar kemur kvenmaður og þakkar henni auðmjúkt fyrir það sem hún hafi flutt sig yfir fljótið og segist hafa farið á bak hestinum sem hún teymdi, strax og hún hafi komið austur yfir fljótið, og hafi hún teymt undir sér meðan hún leitaði stúlkunnar og svo vestur fyrir fljótið og biður hana forláta sér þó hún hefði þetta ómak fyrir sér, en sér hafi legið mikið á að komast vestur yfir, og segir ennfremur að hún hafi átt heima í einu af huldufólkskotum þeim sem séu í Lundarbrekkulandi, en hún hafi átt barn í lausaleik og hafi faðir sinn reiðzt svo mikið og orðið svo vondur við sig að sér hafi valla verið vært og hafi því tekið það ráð að flýja vestur yfir til frændfólks síns sem búi á Sexhólagili; það er fyrir framan Stóruvelli.