Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonan í Ásgarðsstapa

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Álfkonan í Ásgarðsstapa

Í Hvammssveit í Dalasýslu er bær sá sem Ásgarður heitir. Stendur hann skammt frá sjó undir fjallshlíð einni fagurri. Með sjónum liggur grund slétt og fögur. Ofanvert við grundina er flói mikill sem liggur upp undir Ásgarðsbæ. Upp úr miðjum flóanum stendur stapi mikill sem heitir Ásgarðsstapi. Það var gamalla manna mál að þar byggi álfafólk enda þóttust menn oft verða varir við það.

Einhvern tíma bjó í Ásgarði bóndi nokkur sem var ungur að aldri og atgjörvismaður hinn mesti. Hann átti unga konu; var hún skörungur mikill og fríð sýnum. Á aðfangadagskvöld jóla var hún ein saman fram í búri og skar niður hangið kjöt sem hún ætlaði að skammta heimilisfólkinu. Þá kemur til hennar ókunnugur maður, tekur í hönd hennar og leiðir hana út og alla leið ofan að Ásgarðsstapa. Stapinn var opinn; þau ganga þar inn. Þar lá kona á gólfi og var þungt haldin. Hinn ókunni maður leiðir konuna að rúmi hennar og mælti: „Þetta er konan mín sem liggur í barnsnauð; láttu sjá og reyndu til að hjálpa henni.“ Konan fer um hana höndum og innan stundar verður hún léttari. Þegar barnið var fætt laugar konan það og reifar síðan. Þá fær huldukonan henni stein svartan að lit og segir henni að strjúka honum um augun á barninu. Hún gjörir svo, en bregður honum um leið á annað auga sitt svo ekki ber á. Henni þykir þá undarlega bregða við því hún sér þá með því alla hluti í jörð og á, ekki síður anda en menn. Að því búnu tekur álfamaðurinn í hönd henni og leiðir hana upp undir Ásgarðstún. Að skilnaði þakkar hann henni liðsinni sitt með mörgum fögrum orðum, biður hana að hann megi vitja hennar oftar ef sér liggi á og segir henni að fara snemma á fætur morguninn eftir og muni hún þá finna kistil á bæjarkampinum, í honum muni vera kvenbúningur sem hún skuli eiga og vera í á jóladaginn eða á nýjársdag hvern daginn sem messað verði í Ásgarði. Nú skilja þau.

Konan kemur heim og lætur ekki á neinu bera, rís úr rekkju um morguninn áður en nokkur vaknar; var þá kistill á bæjarkampinum og í honum kvenföt skrautleg mjög svo hún hafði engin séð slík. Um daginn var messað í Ásgarði og varð öllum starsýnt á skrúða þann hinn fagra sem hún var í.

Á tíu ára tíma eftir þetta hvarf hún á hverju ári hér um bil hálft dægur og stundum heilt og vissi enginn hvað af henni varð. Bóndi gekk oft á hana og bað hana að segja sér hvert hún færi, en þess var ekki kostur, hún sagðist engum segja það. Svo bar til eina nótt að húskarl bónda í Ásgarði gat ekki sofið. Hann heyrir að þá er komið á glugga þann sem var yfir hjónarúminu, kallað til konunnar og hún beðin að koma skjótt því nú sé konan sín lögzt á gólf og segi sér þungt hugur um. Konan bregður við skjótt, klæðist hljóðlega og fer svo fram úr baðstofunni. Bóndi saknar hennar um morguninn og verður hverft við. Allir klæðast skjótt, en þegar þeir koma út sjá þeir hvar hún kemur gangandi neðan úr flóa. Hún kemur heim og er grátin mjög. Hún segir þá upp alla söguna frá því fyrsta, að hún hafi á hverju ári verið sótt til konunnar í stapanum og nú hafi hún dáið.

Svo bar til nokkrum árum seinna að kona þessi var stödd vestur í Stykkishólmi; var þar þá kaupstefna fjölmenn. Hún þekkir þar álfamanninn úr Ásgarðsstapa. Verður hún of bráð á sér og segir: „Þú ert þá hérna.“ Hann gengur að henni þegjandi og rekur fingurinn í augað sem hún sá allt með, og frá þeirri stundu varð hún blind á því og iðraðist mjög ógætni sinnar. En mesta auðnukona var hún alla ævi.