Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonan í Múla

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Álfkonan í Múla

Vestur undir Barðaströnd í Flateyjarsókn, í Látrum, bjó maður Ingimundur að nafni, vel við efni, hvörs barnabörn að enn lifa. Þessi Ingimundur var atorkumaður og óblautgjörður í geði. Í landareigninni var einn hólmi er mér hefur sagt verið að Múli heiti; hann hafði aldrei mátt slá og aldrei var hann sleginn, en gras var mikið á hólmanum. Þetta tók upp á geðsmuni Ingimundar að sjá hólmann með miklu grasi, en mega ei það nota sér, hvar fyrir hann þoldi ei lengur þar yfir og skipaði mönnum sínum hólmann að slá. Kona hans bað hann það ei láta gjöra; en hann gaf sig þar ekki að og lét slá hólmann mót vilja konu sinnar; so var hólminn sleginn og nýttist vel grasið og var mikið hey af hólmanum og þóttist Ingimundur vel hafa ráðið að láta slá hólmann. En um haustið dreymdi konu Ingimundar að henni þótti kona til sín koma og nokkuð angursöm í bragði; hún mælti so: „Illa gjörði bóndi þinn; hann lét slá ey þá er ég í bý, hvar fyrir ég verð að drepa kú mína er ég hafði björg af og skal maður þinn njóta þín; en þó skal hann bera menjar mínar að ég verð fyrir hans skuld að farga kúnni minni.“ Gekk hún so á burt og til Ingimundar er svaf í öðru rúmi og sagði við hann í svefni: „Þú nýtur konu þinnar að ég geld þér ei verðug laun fyrir það að þú hlýddir ei konu þinni og lézt slá hólma þann er hún bað þig að láta ei slá og fyrir það þú lézt slá hann verð ég að drepa kúna mína, en þó vil ég að þú til þess muna skulir;“ hún tekur þá um hönd hans og sagði: „Ei skaltu nú á harðara kenna.“ Síðan gekk hún á burt, en hann vaknar og kennir til verkjar í hendinni. Visnaði hún so upp og gat hann aldrei úr því neitt með henni unnið. Þetta er satt og er þetta eitt bevís til að sama er búskaparlag þessara jarðarbúa sem vort.