Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonan í Stekkjarbergum

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einn tíma bjó sá bóndi í Höfnum sem Kolbeinn er nefndur; hann var maður kvongaður. Þeim hjónum kom það ásamt eitthvert vor að setja skyldi nýjan stekk sunnan undir bergjum þeim er síðan eru nefnd Stekkjarberg. Þau eru fyrir neðan vatn það er Rekavatn heitir. Síðan var stekkurinn byggður og þegar stíað um kvöldið þá er hann var albúinn. En þá er til var hleypt um morguninn fannst ein ærin dauð í stekknum. Ekki gáfu þau hjón sig að þessu og var stíað þrjú kvöld í samt, en hvern morgun er til var komið lá einhver ærin dauð. Bóndi vildi nú leggja niður stekkinn, en kona hans kvað þar nei við og sagði að þar skyldi stía meðan nokkur ær væri lifandi eftir. Nú var rekið í stekkinn hið fjórða kvöldið og stíað eins og vant var. En um nóttina sem bóndakona var sofnuð þá dreymir hana svo að henni þykir koma til sín kona, bláklædd og vel búin. Hún biður húsfreyju með sér ganga. Hún gerir svo; þær ganga til Stekkjarbergja og þar inn í bergið á einhverjum stað. Þar sér húsfreyja bæ, baðstofu, búr og eldhús, og sýndist húsfreyju þar hvervetna snoturt og þrifalegt um að litast og allt vel um gengið. Að síðustu leiðir konan húsfreyju í búrið; þar sér hún með annari hlið standa keröld og önnur ílát bæði stór og lítil, en hinumegin mörg trog á bekk full af mjólk. Þá var komið að þeim tíma um morguninn ofan jarðar að til skyldi hleypa og nú heyrir húsfreyja svo sem undirgang nokkurn og fylgja þar með skruðningar allmiklar þá er ær bónda eru reknar yfir bergið í stekkinn. Verður nú mjólkin í trogunum allt í einu svört ofan af moldryki. Þá segir huldukonan við húsfreyju: „Líttu nú á, góðin mín, hvernig ærnar þínar fara með mjólkina mína; þyki þér ekki von til þó mér mislíki þessar skemmdir? Hættu nú að láta stía lengur í þessum stekk sem þú hefir nú, en að öðrum kosti mun ég verða að neyðast til að færa byggð mína, og er mér það þó hinn mesti skaði og mjög í móti skapi, því að bær þessi er langfeðgaeign mín, en fé þínu vil ég nú ekki framar grand gera.“ Eftir þetta vaknaði húsfreyja. Hún lét þegar af leggja stekkinn, en byggja aftur annan nokkuru neðar þar sem nú er kallað á Hólstekk. Merki sjást enn í dag[1] til gamallar girðingar sunnan undir Stekkjarbergjum.


  1. Þegar þetta er ritað, 1861. – P. J.