Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonan þakkláta

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Konu eina dreymdi kvenmann er hún þóttist vita væri huldukona; bað draumkonan hana að gefa sér mjólk fyrir barn sitt, fjórar merkur með dægri í mánuð, og setja það á tiltekinn stað í bænum, og hét konan henni því og efndi það er hún vaknaði. Setti hún mjólkurask á hverju máli á vissan stað og hvarf jafnan mjólkin úr honum, og svo gekk í mánuð. En er hann var liðinn vitraðist konunni hinn sami kvenmaður og mælti að hún hefði vel gjört og skyldi hún nú eiga belti það er hún fyndi í rúmi sínu þegar hún vaknaði. Síðan hvarf konan henni og hún vaknaði; fann hún þá silfurbelti mjög vandað eins og álfkonan hafði sagt henni.