Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonan hjá Kollugerði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Álfkonan hjá Kollugerði

Á bæ þeim á Skagaströnd er heitir Kollugerði bjó ekkja sem Ólöf hét; hún átti son sem Björn hét; þótti hann mjög frábær að greind og þroska. Svo er háttað landslagi þar að hár hóll er í túninu fyrir ofan bæinn, á hverjum þessi drengur lék sér oft með öðrum leiksveini sínum þar af næsta bæ og höfðu þeir sér það til gamans að kasta skarni ofan í holu eða sprungu sem var á hólnum er þó varð aldrei full.

Það bar til eina nótt að ekkjuna dreymir að það kemur til hennar kona og biður hana að sjá svo til að sonur hennar láti af uppteknum hætti að fleygja mold og skarni ofan í mjólkurtrogin sín inn um búrsgluggann. Hún lofar þessu og vandar um við son sinn, en hann lét sem hann heyrði ekki ávítur kellingar. Þetta gekk í þrjár nætur, en seinustu nóttina þótti Ólöfu konan stórreið og hét drengur skyldi hafa lakara af ef hann hætti ekki að spilla fyrir sér mjólkinni. Hin segist hafa flengt hann, en það dygði ekki, og daginn eftir hýðir hún strák sinn meir en fyr, en hann hætti ekki að heldur að dansa á hólnum og fleygja skarni ofan í holuna. Hann var kominn um ferming þegar þetta bar til, en einu sinni þegar þessir drengir voru að leika sér upp á hólnum [bar svo til] að Björn datt og fótbrotnaði; þar eftir brjálaðist hann og varð vitfirringur þar eftir meðan hann lifði.