Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonan og ferðamennirnir
Álfkonan og ferðamennirnir
Einu sinni bar það til á hausti nokkru að tveir menn vóru á ferð saman og sáu er þeir vóru millum bæja nokkurra kvenmann álengdar er líka var á ferð, en gekk mjög hægt. Talaði annar þeirra um að ganga í veg fyrir stúlkuna, vita hvur hún væri og hafa fréttir af henni. Hinn tók þessu með spaugi í fyrstu, en fór þó svo við hins umtölur og alvarlega ásetning að finna stúlkuna að hann brigzlaði honum í háði um hvað hann væri kvennakær og gizkaði á hvurt erindið mundi vera. Þeir skildu þess vegna, en sá er stúlkuna fór að finna sagði til lagsmanns síns hann skyldi bíða ef honum sýndist eða halda til næsta bæjar ef honum sýndist og staldra þar við fyrst þeir báðir ættu þangað erindi. Hann beið lítið þar þeir skildu lítið eitt, og sá þau fundust og stóðu hvurt hjá öðru. Horfði hann á þetta, en leit snöggvast af þeim, og er hann leit þangað aftur hvar hann sá þau stóðu sá hann ekkert. Hélt maðurinn því áfram til bæjarins. Hinn kom ekki fyr en um kvöldið seint. Var þá margt um þetta við hann spaugað, samt gaman og alvara, einkanlega af samfylgdarmanni hans er gjörast vissi samræður þeirra og fýsn hans að finna stúlkuna. En litlum tíma eftir þetta varð hann, sem mest hæddist að þessu og lagsmanni sínum, vitskertur og [var] það alla ævi síðan. Af hinum er það að segja að aðfangadag jóla bjó hann sig í spariföt sín hin beztu og var hann aðspurður því hann svo gjörði í stórblindöskukafaldinu, en hann gaf sig fátt að sem fyrri og fór sína leið, ei vissu menn hvurt. Kafaldið hélzt jólin út og að þeim liðnum kom maðurinn aftur. Vóru þá föt hans jafnþur og þrifaleg sem þá er hann tók þau úr kistu sinni og fór í þau. Enginn fekk að vita hvar hann hafði dvalið þennan tíma. Vóru það gátur manna að verið mundi hafa álfkona stúlka þessi er hann áður hafði gengið í veg fyrir og hann eftir umtali þeirra setið hjá henni um jólin og einnin mundi hún ollað hafa vitskerðing mannsins í hefndarskyni fyrir hæðnina.