Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfurinn í stóra steininum

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Svo er sagt að bóndi sá hafi búið í Hvannstóði í Borgarfirði er Guðmundur hét. Einu sinni var það síðla á kveldi að hann kom frá fé sínu og hafði vantað nokkrar kindur. Hann gekk í baðstofu. Allt fólk svaf þar myrkursvefn, en hann settist á flet er var móti baðstofudyrum og fór ekki af skóm, því hann hugði að fara út aftur þá er lítil stund liði og vita þá hvert kindurnar hefði ei heim komið. Veðri var so háttað að tunglsljós var og spakviðri.

Þegar bóndi hafði litla stund setið heyrir hann þrusk við bæjarhurðu og henni lokið upp, því næst gengið inn seinlega og að baðstofuhurð; þá heyrði hann að var staðið við og hlustað og síðan lokið upp hurðu ódjarflega og gengið að pallstokk og numið þar staðar; sér hann þá að þetta kvikindi bregður upp silfurbjörtum hnífi og er að leitast við að komast upp á pallinn. En í sama vetfangi stökk bóndi á fætur og þá bregður líka hinn við og fram um dyr, en bóndi á eftir og er hann kemur í bæjardyr þrífur hann torfljá sem þar var undir syllu frá því um haustið og hleypur út með hann; og er hann kemur út sér hann mann suður á túnfitinni; sá var lágur vexti og gildlegur og hafði á rás suður um völlinn. Þegar bóndi sér það hleypur hann eftir honum. Hjarn var á jörðu og hart undir fæti og þó miðaði huldumanninum harla lítt jafnvel þó hann herti hlaupið sem mest, og það leizt bónda að hann gæti tekið hinn þegar hann vildi; en hann hugði að sjá inni hans og hafa þá af honum sannar sögur.

Nú hlaupa þeir báðir suður um engjarnar og hefur álfurinn sig allan við og bóndi læzt gjöra hið sama, en veifar torfljánum og eggjar hann að bíða, en hann æpti: „Snúðu aftur, snarmenni, og láttu mig fara.“ En þó hann kallaði sona elti þó bóndi hann allt suður um Króarmel og yfir Lambadalsá og Kollutungur, og er þeir komu sunnarlega í þær og nærri stórum steini er þar stendur nálægt Kækjuskarðavegi sá bóndi að á þessum steini stóðu dyr opnar, hleypur hann þá fram fyrir bjargbúann og kvíar hann utansteins. En þá segir hann: „Láttu mig, maður, ná inni mínu. Þú hefur nú verið fimm ár í Hvannstóði og hefur mér ætíð leikið hugur á konu þinni, en aldrei borið áræði til að ná henni fyrr en nú að ég ætlaði að drepa þig, en nema hana brott, en þess vinn ég þér eið við alla vora vætti að vera þér ei til meins framar.“ Þegar bjargbúinn hafði þannig mælt veik bóndinn sér frá steininum og fór inn í hann og sá þá bóndi þar ekki dyramót. Fór hann eftir það heim. Þetta var um veturinn fyrir jól, en eftir nýjár fékk hann bóndann í Brúnavík til að hafa við sig jarðaskipti og flytja að Hvannstóði, en hann flutti að Brúnavík; því hann þorði ekki að reiða sig á orð huldumannsins.

Þessi Guðmundur átti son er Jón hét og sá var faðir hins svonefnda Galdra-Vilhjálms.