Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Átján barna faðir í álfheimum (2)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Átján barna faðir í álfheimum

Kona nokkur varð að fara á engjar frá barni sínu nærfellt ársgömlu og skilja það eitt eftir. Þegar hún kom heim aftur tók hún eftir því að barnið lét sem það þekkti hana ekki og var undarlegt í alla staði. Konan tók það þá til bragðs að hún tók minnsta pottinn á bænum og setti hann á hlóðir, rak síðan skafablað neðan í svo langa stöng að hún tók úr pottinum út um reykháfinn, svo bar hún vögguna með barninu í fram í eldhús og lézt ganga brott, en stóð reyndar á hleri. Þá stóð gamall og ljótur kall upp úr vöggunni, litaðist um og sagði: „Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá og átján barna faðir í álfheimum og hef ég aldrei séð svo stóra strýtu í svo lítilli grýtu.“ Konan lét sem ekkert væri, en kom nokkru seinna inn í eldhúsið með vönd mikinn og tók að hýða barnið. Hljóðaði það ógurlega. Eftir nokkra stund kom kona þar að með barn í fangi og mælti reiðuglega: „Taktu við krakkanum þínum. Misjafnt höfumst við að, þú berð mitt, en ég dilla þínu.“ Síðan greip hún umskiptinginn úr vöggunni og sást aldrei oftar.