Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ég barði og ég barði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Ég barði og ég barði“

Á einum bæ í Eyjafirði bar það til einn vordag að bóndi var í baðstofu sinni og sá til fjár síns út um glugga. En þar sem féð var stóð mikið stór steinn eða klöpp og gekk sauður undir steininn og kló sér á honum. Sá þá bóndi að grá hönd kom út úr steininum og tók um afturfót sauðarins fyrir ofan konungsnef. Brá hann þá við og gekk undan steininum, en var þá svo haltur að hann dró eftir sér fótinn. En er bóndi hafði séð þetta rann honum í skap. Gekk hann þá út og tók lurk mikinn í hönd sér og gekk að steininum og tók til að berja steininn og heitaðist mjög við það er þar byggi og kvaðst skyldi mölva ofan yfir það hel.... hyski steininn nema það gerði sauðinn jafnheilan aftur, og hefur hann þannig sagt frá: „Ég barði og ég barði svo hvítnaði við í hverju höggi.“ En að stundu liðinni var sauðurinn heilbrigður.