Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ég man þér þóttu góð hjörtun forðum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Ég man þér þóttu góð hjörtun forðum“

Maður hét Sigurður; hann vildi eiga stúlku eina er Guðrún er nefnd. En einn dag er Guðrún var út í læk að þvo þá kom til hennar maður með tvo hesta, söðulhest og annan er hann reið. Hann tók hana þegar og batt fyrir augu henni og reið með hana í burt; vissi hún eigi hvað um sig yrði. Riðu þau mjög langa hríð unz þau komu að hól einum og fór hann með hana inn í hólinn og ræðir nú ekki um þau um hríð.

Einu sinni hvarf allt féð á Auðkúlu þar er Sigurður átti heima, en einn dag fór hann sjálfur að leita fjárins og var á ferð allan daginn, en síðla kvölds kom hann í skógarrjóður eitt og sýndist þar hóll, síðan lítill bær, og fór upp á gluggann og sá þar ljós inni; guðaði hann á glugganum og kom þá út gamall maður. Hann bauð honum til baðstofu og fram af því var honum boðið að borða og það þá hann, en stúlkan er honum færði mat kom með tóm hjörtu á diskunum og sagði við hann: „Ég man þér þóttu góð hjörtun forðum.“ Síðan komu fjórir vinnumenn upp á baðstofuloftið; spurði húsbóndi þann fyrsta hvert hann væri búinn að láta inn sauðina, annan hvert hann væri búinn að láta inn ærnar, þriðja hvert hann væri búinn að láta inn lömbin, fjórða hvert hann væri búinn að láta inn Kúluféð. Um kveldið er Sigurður var háttaður kom hinn sami kvenmaður til hans og sagði hún honum allt hversu farið hefði um burthvarf sitt og að maður sá er sig hefði numið burt hefði látið sig mjög vel, en féð hefðu þau látið hverfa sökum þess að afar harður vetur færi í hönd. Fór Sigurður um morguninn heimleiðis, en féð varð eftir þangað til um vorið. Síðan gekk Sigurður að eiga dóttur þeirra og lýkur þar sögunni.