Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Íma og Jón á Berunesi

Úr Wikiheimild

Jón er maður nefndur, er ég ætla að væri Jónsson; hann ólst upp á Berunesi í Kolfreyjustaðarsókn. Var hann smali og sat yfir kvikfé á sumardag í botnum nokkrum. Þar komst hann í kunningsskap við huldukonu þá er Íma hét; og eru botnarnir síðan kallaðir Ímubotnar. Þeim varð mjög vel á milli, Ímu og Jóni, og var hún hjá honum daglega og nam hann af henni ýmsan fróðleik, því Jón var námfús og vel hagorður. Íma sagði honum að móðir sín héti Rispa og væri mjög fjölkunnug, enda ætti hún galdrabók eina er hún hefði mjög miklar mætur á. Jón bað hana að útvega sér bókina til láns, en hún kvað sér mundi veita það örðugt; þó færði hún Jóni bókina litlu síðar og lærði hann á henni margan galdur og vildi aldrei skila henni aftur hvursu sem þær mæðgur leituðu eftir því. Leitaðist Rispa því jafnan við að drepa Jón, en hann gat ætíð varið sig, stundum með kveðskap og stundum með öðru móti.

Einu sinni er Jón átti heima á Kolmúla, en var þá staddur út á Vattarnesi, kom þar draugur er Rispa sendi honum. Jón rak hann á skip og reri með hann inn að Kolmúla og setti hann niður í svokallað Loppudý fyrir neðan tún á Kolmúla, og bar ekki á honum framar.

Þegar Rispa þóktist verða undir í viðureign þeirra Jóns flutti hún byggð sína yfir fjörðinn og settist að í hellir einum, í sjávarhömrum milli Kallsskála og Krossaness, og er sá hellir síðan kallaður Ímuhellir. Það bar við einn tíma að Jón var á sjó með fleirum mönnum og þurftu að fara fram hjá hellismunnanum; og er kom þar að sagði Jón til hinna: „Sígið nú á, piltar.“ Þeir kipptu þá fast í árarnar og rann skipið með flugferð fyrir hellismunnann, en í því kom glóandi fleinn úr hellirnum og rétt fyrir aftan skipið. Jón segir þá: „Þetta var mér ætlað, og megið þið nú hægja á ykkur.“

Annan tíma var það að Rispa lagði á Jón að hann skyldi rotna taug frá taug og hár frá hári, hvar sem hann væri á landi þá nótt sem hún til tók. Gríma eða Grímusker heitir nærri Berunesi og er aðdjúpt kringum það; tók Jón það til bragðs að hann óð alla nóttina kringum skerið og gat svo forðað lífi sínu, því álögin náðu ekki til hans af því hann var fyrir neðan yfirborð sjávarins. Margar ljótar skepnur kvaðst Jón hafa séð um nóttina. Hann kvað þá vísur tvær um skerið og er þetta önnur:

Gamalt sker hún Gríma er,
gjörð af sjálfum drottni;
situr hér, það sjáum vér,
sjávar föst í botni.