Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ólöf í Hvammi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ólöf í Hvammi

Á Hvammi í Landsveit bjó fyrir eina tíð ekkja er Ólöf hét. Hana dreymdi á vetrarnótt hina fyrstu að kona kom til hennar og sagði: „Nú á ég ekkert fyrir barnið mitt.“ Eftir það lét hún á hvorju kvöldi mjólk í ask og setti hann á hillu í búrinu og var ávallt hvorfið úr honum á hvorjum morgni. Á sumardagsmorguninn fyrsta dreymdi hana að konan kom til hennar með grænt klæðisfat og vildi gefa henni. Ólöf sagðist eigi eiga það, en konan sagði: „Safnast þegar saman koma soparnir þínir, Ólöf mín,“ – og að morgni lá fatið á rúmi Ólufar.