Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ólöf selmatselja

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ólöf selmatselja

Ólöf er nefnd ein bóndadóttir; hún var heima með foreldrum sínum; hún var fríð sýnum og vel að sér gjör. Hún var gjafvaxta mær er þessi saga gjörðist og þótti hinn bezti kvenkostur. Þess er getið að eitthvert sumar var Ólöf ráðskona í seli föður síns og var hún þá alloft ein heima í selinu um daga. Þá varð það til tíðinda einn dag að þar kemur maður ókenndur til hennar í selið og biður hana gefa sér mjólk í hylki nokkuð er hann var með. Hún gerði þegar sem hann bað. Fór svo fram um sumarið að þessi hinn sami maður kom einatt til Ólafar í selið og fekk hjá henni mjólk. Einn tíma undir selverulok kemur hann enn og fær mjólkina að vanda. Ólöf hefir þá orð um að mjólkin sé lítil er hann fái hjá sér að þessu sinni. Hann mælti: „Safnast þegar saman kemur sopar þínir, Ólöf mín.“ Eftir það kvöddust þau og er þess ei getið að hann vitjaði oftar í selið það sumar.

Sumarið eftir var Ólöf enn í seli; hún var þá með barni. Kemur nú að þeirri stundu að hún tekur jóðsótt og var hún þá ein manna heima í selinu. Hún hafði sótt erfiða og var lengi að hún gat eigi fætt, og nú er hún var þar stödd í þessum nauðum þá kemur kunningi hennar til hennar sá er hún hafði mjólkina gefið sumarið áður. En er hann kom til og fór höndum um hana varð hún brátt léttari og ól sveinbarn. Hinn ókunni maður laugaði sveininn og veitti honum allan umbúnað. Ólöf var svo máttfarin eftir sóttina að henni hélt við bana. Dreypti maðurinn þá á hana lyfi úr bauk nokkrum eður glasi og hresstist hún þegar, svo að um skammt kenndi hún sér einskis meins. Hinn ókunni maður hvarf nú á brott og hafði með sér barnið. Er nú ekki frá tíðindum sagt fyrri en maður nokkur vænn og vel metinn gerðist til þess að biðja Ólafar. Hún tók því seinlega og lézt ei hafa hug á að giftast að svo komnu. Þó kom þar um síðir að hún játaðist manninum með þeim skildaga að hann lofaði aldrei ókunnum manni að vera um nótt án ráði hennar. Hann hét því. Var síðan haldið brúðkaup þeirra og fór hún til bús með honum. Ei er annars getið en samfarir þeirra væri góðar. Liðu svo nokkrir vetur að ei varð til tíðinda.

Þá varð það eitt laugardagskvöld að barið var að dyrum á bæ þeirra. Bóndi gengur til dyra og sér ókunnan mann standa úti og er með honum sveinn einn stálpaður. Þeir heilsa bónda og biður hinn eldri maðurinn þeim gistingar. Bóndi hefir eigi aftök um það, en kveðst þó verða að ganga inn fyrst og munu skjótt koma út aftur. Gesturinn spyr hvort hann hafi konuríki svo mikið að hann sé ei einráður um að hýsa mann um nótt. Bóndi segir það eigi vera. Skiptu þeir nokkurum orðum um þetta, en svo lauk að bóndi stóðst ei frýjuorð hins ókunna manns og ámæli við konu hans og bað gesti þegar ganga inn með sér. Þeir gjörðu svo. Húsfreyja sat á palli og heilsuðu komumenn henni. Hana setti dreyrrauða, en mælti ekki. Bóndi spyr húsfreyju hvort hún vili ei vísa gestum til sætis. Hún svaraði og kvað hann geta það sjálfan eins og hann hefði við sitt einræði leitt þá innar. Bóndi vísar þá gestum til sætis á rúm eitt. Hinn eldri maðurinn horfir mjög á húsfreyju svo varla hefir hann af henni augun. Hún mælti þá og heldur stygglega: „Á hvað horfirðu, glapi?“ Gesturinn mælti: „Una augu meðan á sjá, kona góð.“ Ekki er þess getið að þau mæltist fleira við um kvöldið.

Um morguninn eftir ætluðu þau hjón með fólki sínu að fara til kirkju og vera til altaris. En það var þá siður í þann tíma að hver heimamanna beiddi annan fyrirgefningar á öllu því er hver kynni að hafa gert öðrum á móti, áður en til kirkju var farið þenna dag, og svo gerðu þau hjón og heimafólk þeirra. En er þau voru komin út fyrir dyr og mjög svo albúin til kirkjuferðar kemur bóndi að máli við konu sína og fréttir hana eftir hvort hún hafi beðið gestinn fyrirgefningar á því er hún hafði mælt til hans ósæmilega í gærkveldi; hún kveður nei við því. Bóndi biður hana þá ganga inn aftur og friðmælast við gestinn. Þeir sátu enn inni gestirnir og sýndu ekkert ferðasnið á sér. Húsfreyja er lengi treg til inn að fara, en lætur þó til leiðast um síðir er bóndi segist annars kostar munu bregða kirkjuferð og altarisgöngu þann dag. Gengur hún nú inn og að hinum ókunna manni og leggur báðar hendur um háls honum og biður hann ei misvirða það er hún hafi harðlega til hans mælt í gærkvöldi, kveður þá hafa verið tímana að hún hafi fegnari orðið fundi hans en svo sem nú sé komið. Þar lágu þau nú bæði í faðmlögum langa stund og fékk hvorugt þeirra orð mælt fyrir ekka og harmi.

Nú leiðist bónda að húsfreyja kemur ei út aftur og gengur hann inn; sér hann brátt hvað um er að vera. Er þá svo sagt að hinn ókunni maður og húsfreyja léti þar líf sitt þegar í stað hvort í annars örmum. Bónda þótti þessi atburður bæði undarlegur og hörmulegur. Hann tók sveininn og ól hann upp. Sagði sveinninn svo að hinn ókunni maður hefði verið huldumaður og faðir sinn, en Ólöf húsfreyja móðir sín. Meira vissi sveinninn ekki að segja um skipti þeirra. En bóndi átti sér móður aldraða er þar var þá með honum. Henni hafði Ólöf einn tíma sagt sögu þá alla er hér er rituð að framan um viðureign huldumannsins og stúlkunnar í selinu. Hafði þá Ólöfu orðið það óvart þegar hún sagði frá því er huldumaðurinn dreypti á stúlkuna á barnssænginni, að hún mælti þessi orð um leið: „Og þann sopa hefi ég sætastan sopið.“ Af því þóttist hin gamla kona skilja að Ólöf mundi þar hafa sagt frá sjálfri sér sem stúlkan var, en hún hafði dulið alla um þenna hlut til þess að sá atburður varð er nú var frá sagt. Lýkur svo þessari sögu.