Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Þá hló marbendill

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Þá hló marbendill“

Einu sinni réri bóndi nokkur til fiskjar og dró marbendil. Bóndi leitaði marga vega máls við hann, en marbendill þagði við og svaraði engu nema því að hann bað bónda að sleppa sér niður aftur, en bóndi vildi það ekki.

Síðan hélt bóndi til lands og hafði marbendil með sér. Kemur þá kona hans til hans í fjöruna og fagnar bónda sínum blíðlega; hann tók því vel. Þá hló marbendill. Því næst kemur til bónda hundur hans og flaðrar upp á hann ofur vinalega, en bóndi slær hundinn. Þá hló marbendill annað sinn. Eftir það heldur bóndi heim til bæjar síns, en á leiðinni dettur hann um þúfu og meiðir sig. Bóndi reiðist við og lemur þúfuna alla utan. Þá hló marbendill þriðja sinn. Í hvert sinn er marbendill hló þá spurði bóndi hann að hverju hann hafi þá hlegið, en marbendill þagði æ og svaraði engu. Bóndi hafði nú marbendil hjá sér um ár og fékk þó aldrigi orð af honum. En að annari jafnlengd frá því er bóndi hafði dregið marbendil þá biður hann bónda að flytja sig til sjóar og hleypa sér niður aftur. Bóndi sagðist skyldi gera það ef hann segði sér að hverju hann hefði hlegið þrisvar þá er hann flutti hann heim með sér. Marbendill kvaðst það ekki gera mundu fyrr en hann hefði flutt sig á sjó fram þangað sem hann hefði dregið sig í fyrstu og léti sig þar niður fara.

Bóndi gerir nú svo, að hann flytur marbendil á hið sama mið er hann hafði hann upp dregið; og sem þeir eru þar komnir þá segir marbendill: „Hið fyrsta sinn hló ég að því er kona þín fagnaði þér svo blíðlega, því að hún gerði það af falsi, en eigi af elsku, og hefir hún fram hjá þér. Annað sinn hló ég að því er þú barðir hund þinn, því að hann fagnaði þér af tryggð og einlægni. Hið þriðja sinn hló ég að því er þú lamdir þúfuna, en peningar eru fólgnir í þúfunni og vissir þú það eigi.“ Síðan fór marbendill niður, en bóndi gróf í þúfuna og fann þar fé mikið, og varð hann af því auðigur.