Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Þæfusteinn á Snæfellsnesi

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Í Neshrepp utan Ennis á Snæfellsnesi hét forðum bær einn á Steini. Einhveru sinni kom þar maður ókenndur og beiddist gistingar og greiða. Bóndi var ei heima, en húsfreyja var fyri svörum og kvað honum heimila skyldu gistingu og beina ef hann að morgni þæfði fyri sig tvítuga voð vaðmáls. Gestur lézt það mundi til vinna og bað hana hafa voðina búna til þófs að morgni. Húsfreyja kvað svo skyldi vera og árdegis fer hún til og þvættir þófið sem henni líkar, leggur síðan á hurð og segir gestinum til og biður hann vinda að vild sinni. Síðan gengur húsfreyja til búsmalaverka, en veitir þó fyrst gesti sínum árbita eða árbít (en ei er þess getið að hún byði honum kaffe!) En er komið var nær jöfnu báðu hádegi og dagmálum hyggur húsfreyja að vita um þófarann. Er hann þá horfinn og finnst hvergi, en á steini þeim er bærinn dregur nafn af sér hún liggja böggul einn; gengur hún þá þann veg og sér að þæfan (ᴐ: þófsvofin) liggur á steininum og er orðin svo þétt samanbarin sem steinn væri svo hún fær hvergi rakið til upphafs né enda á henni, en laut eður slakki er komin í steininn þar sem þæft hafði verið á honum, og heitir sá steinn síðan Þæfusteinn til þessa dags. Höfðu menn það síðan fyri satt að þófarinn mundi Bárður á Jökli verið hafa.

Þaðan frá er kominn sá siður að heita á Bárð til þófs með sér og er þar fyri hafður ýmislegur formáli, en altíðast er að byrja hann á þessa leið:

„Bárður minn á Jökli,
leggstu á þófið mitt;
ég skal gefa þér lóna
innan í skóna og vettlinga á klóna.“

Og svo tengja menn hér aftan við ýmisligum orðtökum eftir sem hverum hefur hugkvæmzt og hugnað.