Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Þórunn og Þórður

Úr Wikiheimild

Hér byrjar saga af tveimur bændum er Bjarni og Björn hétu. Bjarni átti mörg börn, en Björn átti eina dóttur er Þórunn er nefnd. Björn þessi var fremur fátækur, en átti þó nægilegt fyrir sig. Það er að segja frá því að Bjarni deyr svo það kom að því að prestur og hreppstjóri héldu ráðstefnu um það hvurnin ætti að ráðstafa börnum ekkjunnar. Þótt hún rík væri þá gat hún ekki sinnt öllum þeim barnafjölda, svo það var til bragðs tekið að börnunum var komið fyrir hjá heldri bændum til uppfósturs með meðgjöf. Björn bauðst til að taka dreng einn af ekkjunni er Þórður er nefndur. Þórunn og Þórður voru lík að aldri og léku sér saman.

Og svona liðu fram stundir þangað til að þau voru átján vetra að aldri. Þá er sagt að það sumar litlu fyrir sláttinn að kona bónda biður hann að láta fara til grasa og láta konur á næstu bæjum vita af því „og skulu þau Þórður og Þórunn fara til grasa frá okkur ásamt hinu vinnufólkinu“. Það fer af stað með tólf hesta og ríða fram dal og upp úr honum. Lá vegurinn upp á háls nokkurn og var mjög bratt svo hvur mátti fara eftir öðrum; Þórunn var seinust. Þá er þeir voru komnir upp á hálsinn þá vantar bóndadóttur, en hesturinn kom og lágu taumarnir upp á makkanum. Allt fólkið fór að leita og fann ekki hvar sem leitað var. Þórður var mjög hryggur eftir þenna missir svo hann gekk oft einförum; sömuleiðis urðu foreldrarnir mikið hrygg þá er þau fréttu þetta.

Nú liðu nokkur ár; Þórður var fjármaður hjá bónda og eitt haust þá vantar allt féð, og þegar leið að jólum þá segir Þórður að hann vilji fá nesti og nýja skó. Kona bónda biður hann að vera heima; hann segist fara vilja, hvurt hann komi nokkurn tíma eða aldrei. Hann fer af stað og gengur allan daginn og um kvöldið kemur hann ofan í dal einn er hann ekki þekkir. Hann gengur ofan dalinn og sér mjög stóran hól; hann gengur kringum hólinn og finnur tröppur ofan í hann. Þá hann hefur gengið ofan í hólinn, þá finnur hann fyrir sér hurð. Hann lýkur upp hurðinni og sér þar kind við dyrnar; hann litast betur um og þekkir þar forustusauð Björns bónda fóstra síns. Þórður lokar húsinu og gengur fram eftir dalnum og finnur fyrir sér bæ, og er sá mjög stórmannlega hýstur með fimm þilum og snúa öll í norður. Hann sér þrjá glugga á þeirri hliðinni er sneri til vesturs. Þórður fer upp á gluggann og sér þar mann bláklæddan, í frakka og tíguglega búinn og er að ganga um gólf. Þórður sér hann gráta, og þurrkar tárin úr augunum. Þórður fer af þessum glugga á hinn er í miðið var og sér þar tvo menn liggjandi upp í rúmi. Þórður fer að þriðja glugganum og lítur þar konu og ungan kvenmann sitja hjá henni. Konan ber skaut á höfði og er að lesa í bók og sýndist honum það vera biblían. Þórður guðar á þessum glugga; stúlkan fer ofan og lýkur upp og biður hann að fylgja sér. Hún leiðir hann í stofu og spyr hann hvurt hann vilji ekki fá að borða áður en hann hátti því hann muni vera þreyttur af ferðinni. Þórður biður um rúm og þegar búið var að búa það upp þá háttar Þórður, og hefur legið litla stund þá lýkst hurðin upp og konan kemur inn og heilsar Þórði og spyr hann hvurt hann þekki sig. Þórður segir svo vera og verður fár við. Hún biður hann að vera glaðan og segir honum: „Þá er við skildum, þá kom þessi maður og tók mig með sér og flutti mig í þenna dal og átti mig. Hann er af álfafólki kominn og er sýslumaður hér. Nú er ein bón mín að þá er þú hefur sofið einn dúr, að fara á fætur og ganga út; þar muntu sjá hest með hnakki og skaltu fara honum á bak og ríða honum fram í dalinn; þar muntu sjá mannfjölda mikinn og stúlku með barni inn á milli þeirra. Svo er mál vaxið að stúlka þessi er systir manns míns og hefur átt barn við föðurbróður sínum og á maður minn að dæma hana til lífláts; því var hann grátandi áðan. Nú bið ég þig þá er þú kemur að þeim stað er fólkið er, þá skaltu slá upp á hestinn, þá munu hinir gefa þér rúm. Þú skalt segja við stúlkuna: „Viltu ekki setjast upp á hestinn hjá mér?“ Ef hún þiggur það þá skaltu ríða með hana lengra fram í dalinn; þar muntu sjá bæ og konu standa úti fyrir dyrum. Kona þessi mun bjóða stúlkunni inn til sín og þú skalt leyfa henni að fara.[1] Þá þú ert búinn að þessu skaltu koma hingað aftur.“ Síðan gefur konan honum bók og biður hann að skrifa þetta í bókina og allt hvað við ber hér í vetur, „því hér verður þú að vera til vors“. Þórður segist heim fara til fóstra síns því hann haldi sig ella dauðan. Konan segir: „Það verður nú fram að fara sem ég vil í þetta sinn.“ Þórður gjörir allt er konan bauð honum og að loknum þeim starfa kemur hann heim að bæ sýslumanns. Sýslumaður stendur úti og býður honum til stofu; það er borið á borð fyrir þá kindahjörtu og lungnafitur og segir konan um leið og hún setur þetta á borð: „Ég man að þá er við vorum saman, Þórður minn, að þér þótti þessi matur góður.“ Þórður er um veturinn hjá sýslumanni og skrifar í bók sína allt það er við ber á bænum, og daginn fyrir sumardaginn fyrsta þá segir konan honum að fara heim og taka féð fóstra síns með sér „og höfum við fóðrað það í vetur, því annars hefði hann misst það allt því harður vetur hefur verið í byggð föður míns. Flestallir bændur hafa misst kindur sínar; þess vegna sóttum við kindur hans. Þú verður að koma aftur á morgun og skaltu öngvum segja neitt af ferð þinni nema bók þín skal eftir vera hjá fóstra þínum.“ Nú fer Þórður af stað og kemur heim til Björns bónda og færir honum sauði sína; hann háttar, talar ekki orð við neinn hvurnin sem á hann var leitað. Um morguninn fer hann snemma á fætur og biður fóstra sinn að fyrirgefa þó þeir nú verði að skilja. Birni líkar þetta mjög illa, en Þórður segist efna verða heit sitt, „mun ég oft heimsækja ykkur“. Björn biður hann að taka móti arfi sínum er töluvert var, og greiddi Björn það allt í peningum. Eftir það fer Þórður og kemur seint á degi til sýslumanns er þá beið hans úti fyrir dyrum og segir hann vera velkominn. Þeir ganga til stofu, og þá Þórður og sýslumaður eru setztir niður kemur konan inn og leiðir dóttur sína við hönd sér og gengur að Þórði og mælir á þá leið: „Ég hef öngar sumardagsgjafir að bjóða þér utan dóttur mína“ og setur hana um leið í kné honum, en sýslumaður tekur upp bréf og gefur Þórði svo mælandi: „Ég gef þér þetta; þú getur sett þig niður hér sem bóndi eða verið vinnumaður hjá mér.“ Þórður þakkar gjafirnar og eftir það halda þau brúðkaup sitt og bjuggu að sýslumannssetrinu til elli.

Og lyktar svo þessi saga.

  1. Því ef mennskur maður gat frelsað stúlkuna þá gátu álfamenn öngu við ráðið. [Hdr.]