Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Þú hefur vökvað karltuskuna mína

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Þú hefur vökvað karltuskuna mína“

Það bar til hjá einni ríkri konu um haust að tómur askur sem hún þekkti ekki stóð á búrhillu hennar eitt kvöld. Hún fyllti hann af volgri nýmjólk og lét hann í sama stað aftur. Um nóttina hvarf hann, en kvöldið eftir var hann kominn aftur tómur og fyllti konan hann. Þetta gekk allan veturinn. Á sumardagsmorguninn fyrsta svaf konan í rúmi sínu. Hana dreymdi að kona kom á gluggann og sagði: „Hafðu það sem ég legg hér fyrir það þú hefir vökvað karltuskuna mína í vetur.“ Hún fór burt, en konan vaknaði og fann við gluggann ábreiðu svo fallega að hún hafði aldrei séð eins góðan dúk og átti hún hana lengi síðan. Úti er sagan.