Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Þar fór einn með þýfi

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Svo er mælt að kona nokkur hafi gengið út eitt kvöld til að hirða þvætti sína. Meðan hún var að því kemur maður nokkur að henni og biður hana að veita sér ásjá og sitja yfir stúlku. Konan segist ekki vita neina grein á honum og kvaðst ei mundi fara. Hann biður hana þá mikillega, tjáir henni að hann sé álfakyns og geti hin jóðsjúka ekki fætt nema mennsk kona fari hana höndum; að öðru leyti megi hún vera ókvíðin um að hana muni nokkuð saka. Við þessi ummæli lætur konan til leiðast. Gengur hann þá fyrir, en hún á eftir (ekki er getið um hvað lengi) unz þau komu að hól nokkrum. Hóllinn lykst upp og hann leiðir hana inn. Í hólnum sér hún ekkert nema kvenmann er liggur á gólfi. Hún fer höndum um hana og innan stundar greiðist hagur hennar. Maðurinn ber yfirsetukonunni þá laugarvatnið, reifana og annað er við þurfti, meðal hvörs að voru smyrsli í bauk er hann sagði henni að rjóða á augu barnsins. Hún gjörir svo, en drepur um leið fingrinum smyrslugum í auga sér. Bregður þá svo við að hún sér innan um allan hólinn. Hún sér þar karla og kvinnur; sat sumt við vinnu, sumt gekk um beina, og svo framv. Þegar hún hafði lokið nærkonu skyldunum þakkar maðurinn henni mörgum fögrum orðum, gefur henni kistil með mörgu fágætu og fylgir henni heim til sín. Að skilnaði biður hann hana að verða hvorki sér eður hyski sínu til óheilla þó að hún sé nú orðin skyggnari en aðrir menn því séð kvaðst hann hafa, þá er hún drap fingrinum á auga sér.

Nú líður og bíður. Konan sér allt hvað álfum líður með öll búnaðarstörf og lagar heimilishagi sína eftir því. Verður hún nú mesta lánskona og græðir á tá og fingri. Eitt sinn bar svo til að hún var stödd í kaupstað; sér hún þá að kunningi hennar huldumaðurinn kemur þangað, fjallar um allt það er í var búðarpallinum og stingur hjá sér nokkru því er honum þókti eigulegast. Þetta gremst konunni og kallar um leið og huldumaðurinn gengur út: „Þar fór einn með þýfi!“ Hann snýr þá við, hvessir augun á hana og blæs á auga hennar það hið skyggna. Hverfa þá allar ofsjónir af því og upp frá þeirri stundu hvarf henni einnig öll heill og hamingja svo að hún varð öreigi og vesælingur.