Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Þjóðbrók

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þjóðbrók

Skessan Þjóðbrók átti bústað í því gili er við hana er kennt síðan og kallað Þjóðbrókargil, það er vestanvert í Selárdal. Ekki eru neinar sagnir til um hana nema þessi frásaga er á eftir kemur.

Gissur hét húskarl á Stað er Þjóðbrók vildi fá til sín er hann var í fjárleit, en hann gaf engan kost á því nema því aðeins að hún útvegaði sér fimmtán ára gamlan hákarl, en gaf henni mánaðarfrest. Síðan fór hann til hennar og var hjá henni mánaðartíma; þótti henni hann of smávaxinn til að eiga svo stórfengilega konu sem hún var og togaði hann því mjög svo hann varð miklu hærri en áður. Síðan bjóst Þjóðbrók að heiman til þess að útvega hákarlinn. En er hún var burt farin strauk Gissur frá híbýlum hennar og hélt heim til sín fyrir skamman fjallveg. En er hann var kominn á svonefnda „Teigabrún“ fyrir ofan Staðarbæ sá hann hvar Þjóðbrók fór á eftir honum með hákarlskippu og æpti að honum: „Hákarlinn, Gissur, hákarlinn, Gissur, fimmtán ára gamall.“ En hann rann undan sem fætur toguðu unz hann náði til kirkju á Stað; braut hann upp kirkjuhurðina og tók í klukkustrenginn og hringdi. Barg það honum, því jafnan sat hún um Gissur eftir það og leitaðist við að fá hefnt sín á honum og það vissu heimamenn; voru því hafðar gætur á honum og hann aldrei látinn einn vera. En einu sinni var hann að fjósaverkum og var þá enginn heimamanna hjá honum. Kom þangað Þjóðbrók, réðist á Gissur og rotaði hann loks á flórhellunni. Þjóðbrók á að hafa dagað uppi í Þjóðbrókargili.