Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Að temja nykur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Að temja nykur

Til þess að temja nykurinn og geta haldið honum til brúkunar að staðaldri þarf ekki annað en sprengja blöðru sem er undir vinstra bógnum á honum. Dæmi hér upp á er þessi saga sem séra Páll á Hnappsstöðum sagði mér haustið 1861:

Á Hömrum í Grímsnesi var drengur staddur nálægt læk einum og var að tálga spýtu að gamni sínu. Þá sér hann þar skammt frá sér gráan hest, gengur til hans og fer að skoða hann í krók og kring, en hesturinn stóð grafkjur. Finnur þá drengur undir vinstra bógnum á hestinum kepp eða blöðru sem honum þókti undarleg og rekur tálguhnífinn sinn í hana. Síðan hnýtir hann upp í hestinn og ríður honum heim. Hestur þessi var síðan lengi á Hömrum og var kallaður Nykurgráni.