Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Akraneskýrnar

Úr Wikiheimild

Nokkrir menn voru í hálfrokknu á ferð með sjó fram og urðu varir við sækúahóp skammt frá sjónum. Nú hljóp hver sem fætur toguðu að komast fyrir kýrnar áður en þær hlypu í sjóinn. Maðurinn einn, Gunnar að nafni, varð fljótastur og náði í öftustu kúna eða komst fram fyrir hana; kýrin hafði blöðru fyrir grönunum, og þegar maðurinn náði til að sprengja hana vildi kýrin ekki aftur í sjóinn; síðan var farið með hana heim í fjós til annara kúa og gafst ágæta vel. Frá henni eru komnar margar kýr á Akranesi og öngvar þvílíkar til mjólkur eða vaxtar. Þessi kýr var grá að lit eins og sækýr eiga ætíð að vera. Þessu líkar voru sögurnar.