Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Bóndadóttir heilluð af álfum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Bóndadóttir heilluð af álfum

Fyrir austan bar það til að bóndadóttir hvarf af einum bæ; var hennar víða leitað og fannst ei. Báru hjónin sig mjög illa. Bóndi fór til prests eins er hann þekkti að fróðari var öðrum í mörgu. Prestur tók honum vel og biður bóndi hann að hafa nú í frammi það hann geti og komast eftir hvar dóttir sín væri, dauð eður lifandi. Prestur segir hún sé burt numin af álfum og sé hönum engin gleði að, henni að ná eður hana að sjá. Bóndi segist ei því trúa og biður prest sér að hjálpa í þessu, henni aftur að ná. Og fyrir mikla beiðni bónda tekur prestur til eitt kvöld á hvörju bóndi skuli koma til sín. Gjörir bóndi það, að hann kemur á tilteknu kveldi til prests, og þá allir voru í rúm komnir kallar prestur bónda út; sér þá bóndi hvar prestur stendur með reiðtygjum. Prestur fer á bak hestinum og segir bónda á bak að fara hjá sér; bóndi gjörir það og fer á lend hestinum á bak við prest. Ríður prestur so á stað og bóndi; ei veit bóndi hvað lengi þeir hafa riðið þar til þeir koma að sjó; þar ríður prestur út á sjóinn og lengi nokkuð þar til hann kom að háum hömrum eður bjargi; hann ríður þar upp undir og fram með þar til hann í einum stað staldrar við fyrir framan björgin. Í því ljúkast þau upp og er að sjá sem húsdyr á þeim. Þar sér bóndi ljós loga og er þar albjart inni að sjá af ljósinu; fólk sér hann þar ganga til og frá, karlmenn og kvenfólk. Þar sá hann einn kvenmann ganga; hún var mjög bláleit í andliti með hvítum krossi í andliti eður enni. Prestur segir við bónda hvörnin honum lítist á þessa er krossinn hafi. Bóndi segir: „Ekki vel.“ Prestur segir: „Þessi kvenmaður er dóttir þín og skal ég ná henni ef þú vilt, en þó er hún nú tryllt orðin af samveru hennar við fólk þetta.“ Bóndi kvaðst það ei vilja og bað prest sem fljótast í burt að fara því hann sagðist [ei] hug hafa til að horfa á þetta lengur. Prestur snýr þá við hestinum og ríður sama veg til baka og kom so heim til sín so enginn af vissi ferð þeirra. Bóndi fór heim til sín um daginn angursamur og hryggur og segir ei meir frá hönum.

Þetta hafði við borið eigi mörgum árum eftir það að alkristnað var land þetta.