Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Bóndadóttir prestskona í álfheimum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Bóndadóttir prestskona í álfheimum

Það var einu sinni kall og kelling í koti sínu og áttu sér mörg börn. Þau voru oft að leika sér út á túni. Soleiðis var að túnin voru stór og öllsömun með hólum. Einu sinni voru börnin að leika sér í kringum þessa hóla seint um kvöld og so hlaupir hvurt sem mest getur heim og eru að keppast hvurt við annað, en þegar þau komu heim vantaði elzta barnið og var það stúlka, so það er so verið að leita að henni mjög lengi, en hún finnst hvurgi, so móðir hennar leggst í sorg og faðir hennar litlu betri og bæjarfólkið harmaði hana mjög. Þegar konan er búin að liggja mánuð þá dreymir hana að kona kæmi til hennar og segja að hún skyldi ekki vera að harma hana dóttur sína, henni liði vel, so henni fer að smáskána og skríður so á fætur.

So líða nú undir tuttugu ár, þá fer konan í kirkjuna eins og hún er vön, og þegar allt fólk er komið í kirkju, þegar hún er búin að gjöra bæn sína þá finnst henni vera komið við augað á sér og þegar hún lítur upp sér hún að allra mesti fjöldi af fólki kemur inn í kirkjuna og hefur hún aldrei séð það fyr, og er fyrst kallmannahópur og þar er í prestur og hann hagar sér eins [og] hinn presturinn. So kemur kvenmannahópur og þekkir [hún] þar dóttur sína sem er fremst í hópnum og leiðir börn, pilt og stúlku, og lætur drenginn fara í kórinn, en hún fór með dóttur sína í innsta stólinn norðan megin. So eftir blessan þá fer konan sem vantaði telpuna og þessi kona út. So þá segir hún móður sinni að hún sé orðin prestskona og eigi þessi tvö börn og segir henni að maðurinn sinn messi á hvurjum sunnudegi annarstaðar, en hann hafi messað hér núna til þess að láta hana sjá sig, og biður hana síðan að láta öngvan vita það nema föður sinn og systkini sín. Hún segir að allt þetta fólk búi í hólunum á túninu og þyki sér vænt að hann faðir sinn láti ekki slá þá, það kunni að verða einhvurjum að tjóni. Foreldrar hennar gáfu henni mikið af öllu tæi og eitt af því var kýr.

Einu sinni tekur bóndi vinnumann og hann bannar hönum eins og öðrum að slá hólana í túninu, það sé hér ekki siður. So þegar búið er að slá túnin er hjónunum boðið í veizlu og þá slær vinnumaður alla hólana so enginn veit. Þegar hann er búinn að hálfslá seinasta hólinn dettur hann aftrábak ofan af hólnum og fótbrotnar. So koma hjónin heim og spurja hvar vinnumaður sé; það segir hann muni hafa farið eitthvað á meðan það hafi sofið og þá segir bóndi að það skyldi ekki vera að hann væri farinn að slá hólana sem hann hafi þó bannað hönum og lætur fara að leita að honum, og finnst hann hjá einum hólnum utan túns og er fótbrotinn, og sér fólkið að hann er þá búinn að slá alla hólana. So er hann fluttur heim og liggur mjög lengi í þessu. So brigzlast það loksins saman og hann verður so haltur alla sína daga og er mjög lánlítill. Einu sinni leggur konan sig til svefns í rökkrinu og þá dreymir hana að dóttur sín kæmi til sín og segja að illa hafi tekizt fyrir vinnumanninum hennar; það hefði líka verið að búast við því sem aldrei hafi verið gert fyrr, hann hafi deytt barn fyr[ir] einum hjónum sem þar væru „og hana Kinnu sem þið gáfuð mér. Mér þókti nú ekki mikið um hana hjá barninu.“ Þegar hún er búin að frétta það upp á víst hjá dóttur sinni þá gerir hún vinnumanni sínum miklar átölur so hann lofar að slá þá aldrei oftar.

Einu sinni sem oftar finnast þær mæðgur og þá segir dóttur hennar að hún skuli koma til kirkju á sunnudaginn so hún lofar því. Á sunnudagsmorguninn segir konan að það skuli ekki undrast um sig, hún ætli að ganga í burtu. So fer hún og þá sér hún að fólkið er farið að koma hópum saman til kirkjunnar. Þegar hún kemur að kirkjudyrunum heyrir hún að presturinn byrjar þetta vers:

„Þegar þú gengur í guðshús inn.“

Hún fer so inn í kirkjuna og þá sækir dóttur hennar hana og setur hana í stólinn hjá sér. Henni líkar vel hvurnin messugjörðin fer fram. So eftir blessan fara þær báðar út og inn í bæ og þá spyr hún móður sína að hvurnin henni hafi líkað að vera í kirkjunni. Hún segir upp á það bezta. So þá segir dóttir hennar að hún skuli koma næsta sunnudag með föður sinn og systkini sín og allt bæjarfólkið, fær henni so krukku og segir að hún skuli dýfa fingrinum á sér ofan í hana og drepa í augað á því so það geti séð eins og hún. Hún biður hana að láta öngvan vita það fleiri. So fer hún heim og sunnudaginn þar á eftir fer allt bæjarfólkið til þessarar kirkju og er það allt sett til sætis í kirkjunni, en eftir messu talar prestur við foreldra konu sinnar og segir að þau hafi oft verið að leika sér saman, en hafi hvorugt séð annað, en sig hafi langað að fá hana og hafi so tekið. Urðu þeir so beztu vinir. Bóndinn og bæjarfólkið sjá að allir hólar sem sýndust í túninu er allt bæir og það sér það með auganu sem konan bar á úr krukkunni, en þegar það leggur það aftur, en horfir með hinu, þá sýnist því það tómir hólar. So fer það allt heim og er þar alltaf vinskapur á milli, og endar svo þessi saga.