Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Bóndinn á Reynistað og huldumaðurinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Bóndinn á Reynistað og huldumaðurinn

Seint á dögum Hákonar jarls bjó ungur bóndi á Reyni(stað) á Íslandi. Hann vildi gjöra skála á bæ sínum og þurfti að afla sér trjáviðar. Því fór hann utan sumarið sem Ólafur konungur kom til Noregs. Honum byrjaði seint og kom við Noreg á áliðnu hausti. Þá frétti hann að Hákon jarl var dauður, en Ólafur Tryggvason kominn til ríkis. Bóndi tekur það ráð að fara á fund Ólafs konungs og biðja hann veturvistar. Konungur veitti honum það og var hann þar um veturinn og tók kristni af Ólafi konungi og skírðist. Um vorið fór bóndi út til Íslands og gaf konungur honum skálaviðinn og kirkjuvið og bað hann að láta reisa kirkjuna það sumar.

Þegar bóndi kom heim fékk hann smiði og lét reisa skálann, og þegar hann var algjörður vildi hann láta byggja kirkjuna, en þegar menn vissu að það átti að vera kirkja fór hvur heim til sín, og fekk bóndi engan smið framar því menn voru þá allir heiðnir. Það frétti bóndi um þessar mundir að norskur timburmaður handgenginn Ólafi konungi væri kominn út í Húsavík. Bóndi tekur það til ráðs að ríða þangað og fá hann til að smíða kirkjuna, en þegar hann kom þar var timburmaðurinn farinn utan aftur og fer bóndi heim svo búinn og þykir óvænkast sitt mál. Honum fellur þetta svo þungt að hann neytti hvurki svefns né matar, en ráfaði út um velli eins og höfuðsóttarsauður og þenk[t]i með sér að það mundi vera óhappatrú sem hann hefði tekið, enda skyldi hann kasta henni og taka hinn forna sið aftur ef sér legðist ekkert til að koma upp kirkjunni.

Í því hann er að hugsa um þetta kemur að honum maður alskeggjaður sem hann þekkir ekki. Sá heilsar honum. Bóndi tók því dauflega. Hann spyr því bóndi væri svo hryggur. Bóndi sagði allt sem var. „Á ég ekki að byggja fyrir þig kirkjuna?“ sagði komumaður. Bóndi kvaðst vilja það. Þess er að geta að bóndi átti son þrevetran. Aðkomumaður sagðist eiga son tvævetran, „og leiðist honum,“ segir hann, „að hann hefir ekki leiksvein. Það skal vera kaup okkar að ef ég byggi kirkjuna vil ég fá son þinn til fósturs.“ Bóndi sagðist ekki mundi láta sveininn. „Hann skal fá að finna þig þegar þú girnist það,“ segir aðkomumaður. Bóndi lézt ekki mundi láta hann að heldur. Þá segir hinn: „Ég skal gera þér annan kost. Ég skal byggja kirkjuna, en þú skalt vera búinn að segja mér hvurt nafn mitt er áður en kirkjubyggingunni er lokið, og þá mun ég ekki taka sveininn.“ Bóndi sagði það mundi vera ómögulegt, – „því þú munt heita eitthvað fánefnt,“ segir hann. „Nei,“ segir hinn, „ég heiti algengu íslenzku mannsnafni.“ „Þá skal þetta vera kaup okkar,“ segir bóndi. Hinn játar því og lézt mundi koma strax að morgni. Þeir skildu við það og fór bóndi heim glaður í huga og etur mat sinn um kvöldið og sefur um nóttina. Að morgni kemur hinn ókenndi og tekur til smíða og er að af kappi þann dag. Bóndi situr inni og ritar upp öll mannanöfn sem honum komu í hug og les þau fyrir smiðnum um kveldið. Hann sagði: „Ekki heiti ég neitt af þessu.“ Þá hafði hann reist grind kirkjunnar og algjört veggina. Næsta dag eftir fer bóndi til allra nágranna sinna og biður þá að rita upp öll þau mannanöfn sem þeir vissu. Þeir gjörðu það og kom bóndi um kvöldið með fjarska mikla nafnaþulu og les upp fyri smiðnum. Hann segir eins og fyrr: „Ekki heiti ég neitt af þessu.“ „Þú hefir þá svikið mig,“ segir bóndi, „þú heitir ekki íslenzku mannsnafni.“ Hinn sagði það væri þó víst satt sem hann hefði sagt. Nú þykir bónda verr komið sínu máli en nokkru sinni áður, og daginn eftir ráfaði hann enn út á völl í þungum þönkum og hugsaði svo að ef þessi ókunni maður tæki son sinn, þá skyldi hann brenna kirkjuna og kasta trúnni og verða heiðinn aftur. Bóndi tók ekki eftir hvurt hann gekk og verður honum reikað upp á einn grjóthól. Þar heyrði hann inn í honum að kveðið var. Hann litast um og sér glugg á hólnum og sér að kona sat þar inni og hélt á barni. Hún kvað:

Þegi þú og þegi þú, drengur minn,
senn kemur Finnur faðir þinn frá Reyn
með þinn litla leiksvein.

Bóndi hugsar að hann skuli ekki gleyma þessu nafni, Finnur, gengur heim og inn í kirkju og var hún þá algjör, og var smiðurinn að reka seinasta naglann í útskorna altaristöflu sem hann hafði sjálfur gjört. Bóndi gekk að honum og sagði: „Vel gengur, Finnur minn.“ Hinn leit við, fleygði öxinni og hvarf og sást ekki síðan og vitjaði aldrei sveinsins, en bóndi hélt vel trú sína og fólk hans og endar svo sagan.