Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Búrglugginn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Búrglugginn

Á kvíabóli á bæ nokkrum norðanlands stendur steinn mikill eins og hús í lögun, og er hola á ofanverðum steininum. Börn voru eitt sinn á bæ þessum sem höfðu það sér til gamans einn góðan sumardag að bera lambaspörð í holuna. Reyndu þau til að fylla hana, en gátu það ekki. Um nóttina dreymdi húsfreyju að kona kæmi til hennar reiðugleg; hún sagði: „Það er fallegur vani sem þú hefur á börnum þínum. Hafa þau næstliðinn dag haft það sér til gamans að spilla mjólk minni og borið lambaspörð inn um búrglugga minn. Skulu þau sig sjálf fyrir hitta ef þau gjöra það oftar.“ Morguninn eftir var flogið undir beztu ána. Tók konan þá börnin öll og flengdi þau og hótaði þeim enn harðara ef þau kæmu nærri steininum og forðuðust þau það frá því.