Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Barnapollur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Barnapollur

Nálægt Sævarlandi á Skaga voru eitt sinn átta börn að leika sér þar sem nú er kallaður Sævarlandsbali. Sáu þau á balanum gráan hest; var hann gæfur og tóku þau hann og fóru að fara á bak, og stóð hann grafkyr á meðan. Voru þau þannig komin sjö á bak á einn hest. Þá segir áttunda barnið: „Ég trúi ég nenni ekki að fara á bak hjá ykkur.“ Þá tók hesturinn rás mikla með börnin og að tjörn einni og stökk í hana með börnin, og drukknuðu þau þar öll sjö, en hið áttunda komst lífs af og sagði frá. Tjörnin er síðan kölluð Barnapollur.