Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Barngóðar álfkonur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Barngóðar álfkonur

Þegar sá sami prestur, síra Guðmundur Bergsson, fluttist út að Kálfholti í Holtum þegar honum hafði verið veitt það – hann fór með konu og börnum og nokkru þjónustufólki sínu og þar að auki lest með ýmsum flutningi. So stóð á að þau eldri börnin gátu riðið laus með foreldrum sínum, en drengir tveir er yngstir voru urðu að vera með lestinni því það varð að binda þá við klyfberabogana so þeir dyttu ekki. Þetta lestafólk lá við tjald á næturnar, en hjónin og eldri börnin urðu á einhvörjum bæ eftir sem á stóð. Foreldrar drengja þessara útveguðu þeim og sendu á hvörju kvöldi eitthvað af vökvun þegar þau gátu komið því við. Drengir þessir hétu: Sigurður, á áttunda ári, en hinn hét Brynjólfur, ári yngri, báðir synir síra Guðmundar og þeirra hjóna.

Eitthvört kvöld kom so fyrir að drengir þessir gátu enga vökvun fengið því langt var nokkuð til bæja og sá fólk engan bæ nærri tjaldstað um kvöldið þegar tjaldað var. En þá sömu nótt þá annar bræðra þessara vaknaði og vildi fara út úr tjaldinu vakti hann hinn og beiddi hann koma út með sér því það var vani þeirra. En þá þeir komu út var nálægt sólaruppkomu. Sáu þeir þá skammt frá tjaldinu reisuglegan bæ og komu þaðan ríðandi tvær unglingsstúlkur sem héldu beint að tjaldinu og so komu þær til þeirra og heilsa þeim og fóru að spyrja þá hvört þeir væru ekki ósköp þurir og þyrstir í þessari ferð og sögðu þeir að so væri. Þær sögðu við þá að þeim væri núna bezt að koma með þeim heim til þeirra því þær sögðust vaka yfir túninu og fengju þær í vökustaur (sem kallað er eystra) eitt rjómatrogið og so mikið af skyri ofan í sem þær vildu. „Og ef þið komið með okkur heim,“ segja þær, „þá skulum við gefa ykkur þetta því við vitum hún móðir okkar leyfir okkur það.“ Drengirnir þáðu heimboð þeirra Og riðu þeir sinn hjá hvörri stúlku. En þegar komið var heim í hlaðið var móðir stúlknanna að koma út að signa sig, líkt búin eins og móðir drengjanna með skuplu á höfði eins og þá var títt. Hún segir við stúlkurnar: „Þið komið þá með drengina, látið þá fylgjast með ykkur inn.“ So fór þetta allt inn í búr og var borið fyrir þá so mikið af skyri og rjóma sem þeir vildu, og so þegar þeir eru búnir og þakka fyrir vildu þeir aftur fara strax að sínu tjaldi; en þá fara þær að bjóða þeim að leggja sig fyrir inn í rúm í baðstofunni þangað til að lestamenn þeirra leggi upp; þær skuli passa að vekja þá áður. Þetta vildu þeir ekki þiggja því þá langaði til að komast til sinna manna. En þegar farið var að þrengja þessu að þeim höfðu þeir engin úrræði önnur en að fara að gráta hástöfum so þeim mæðgum fór að blöskra og sagði móðir stúlknanna við þær: „Það dugir ekki annað en þið farið þá aftur með þá.“ Og so fóru þessar sömu stúlkur með drengina aftur til tjalds þeirra og fóru þeir inn í það og sofnuðu. En þegar þeir sögðu frá þessum atburði um morguninn beiddi fólkið drengina að sýna sér hvar bærinn væri, en það gátu þeir ekki því enginn bær sást þaðan frá tjaldinu, en þar sem þeir ætluðu að bærinn hefði verið sást ekki utan tómir klettar. Einnig sögðu bræðurnir föður sínum af þessu, en hann sagði við þá að þetta mundi þá dreymt hafa, en því gátu þeir ekki trúað. Þeir mundu til þessa alla ævi síðan og bar báðum saman um hana. Þeir komust báðir yfir áttrætt og var annar þeirra prestur í Kálfholti, en hinn bjó út í Árnesssýslu.