Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Barnið og álfkonan

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Barnið og álfkonan

Á Heiðarbót í Reykjahverfi í Þingeyjarsýslu bar það til eitt kvöld er konan var í fjósi að eitt af börnum hennar gekk út, ætlaði að elta móður sína út í fjós. Þegar það kemur út á hlað sér það hana standa á hlaðinu. Hún bendir því þegjandi og klappar á lærið. Hún gengur hægt og hægt á undan og klappar á lærið og bendir því að koma. Klettastrókar eru þar fyrir ofan bæinn sem eru nefndir Stöplar. Þangað fer konan og ginnir með sér barnið; hvarf síðan með það inn í Stöpulinn einn, því þetta var ekki rétt móðir barnsins, heldur álfkona.

Nú er að segja frá því að konan kemur úr fjósinu, saknar barnsins, spur eftir því, en fólkið sem heima var meinti það vera í fjósi hjá móður sinni. Urðu foreldrar þess óttaslegnir; var safnað mönnum og leitað, en fannst ekki hvar sem leitað var.

Bóndi bjó á Sandi sem Arnór hét, haldinn fjölkunnugur. Móðirin fór til hans að leita ráða, kom þar seint á degi. Arnór bauð henni þar að gista um nóttina. Hún þáði það. Hann spurði hana um hvurt leyti barnið hefði horfið. Hún sagði sem var. Þetta kveld um sama leyti tekur Arnór kníf og sker upp þrjár þríhyrntar flögur úr gólfinu í baðstofunni, en er hann skar upp þá seinustu heyrðist brestur mikill. Síðan lét hann aftur niður flögurnar í samt lag og kvað konunni mundi óhætt að sofa rólega um nóttina því barnið mundi komið vera. Daginn eftir fór hún heim; var þá barnið komið. Það þótti mönnum kynlegt að önnur kinnin á því var blá og rann bláminn aldrei af síðan.

Nú er barnið að spurt hvar það hefði verið. Það sagði frá konunni sem það hélt móður sína, elti hana hálfgrátandi og kallaði mömmu þar til hún var komin upp undir Stöpulinn, þá greip hún það upp og bar það inn í Stöpulinn, vildi vera góð við það. En það sá nú að þetta var ekki móðir sín. Ekki smakkaði það mat hjá henni; sýndist því hann allur rauður. En þetta kvöld er Arnór risti upp flögurnar hrundu þrír steinar niður úr bjarginu, allir þríhyrntir. En við þann seinasta tók álfkonan barnið; var hún þá reiðugleg, hljóp með það heim að bænum og sló það vænan kinnhest að skilnaði og var það bresturinn er heyrðist eftir að seinasta flagan var upp skorin. Af því var önnur kinnin blá. Barn þetta hét Guðmundur. Hann bjó síðar þar fyrir norðan. Dóttur átti hann er Elísabet hét. Hún er móðir Önnu Jónsdóttur á Syðraholti.