Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Barnsvaggan á Minniþverá

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Barnsvaggan á Minniþverá

Kristín sem var á Minniþverá (hér um bil 1830-40) sagði frá því um móður sína sem var skyggn að hún hefði verið með ömmu Kristínar á engjum og séð einu sinni konur tvær koma ofan úr fjalli og leiða karl á milli sín sem eitthvað bar. Þegar þær komu nær leystu þær pjönkuna ofan af karlinum; sá hún þá að það var vagga og breitt með rauðu yfir. Síðan tóku þær karlinn og börðu hann utan svo hann fór að smáminnka og var orðinn pattakorn. Þá tóku þær hann enn og hnoðuðu unz hann var orðinn eins lítill og vöggubarn. Lögðu þær hann þá í vögguna, breiddu rauða klæðið yfir, báru hana svo á milli sín og stefndu með allt saman heim að bænum. Stúlkan sagði þá móður sinni frá því sem hún hafði séð; en móðir hennar brá skjótt við, hljóp heim og varð fyrri en huldukonurnar að barnsvöggu sem hún hafði látið standa úti á hlaðinu. En þegar huldukonurnar sáu það tóku þær barnið sem þær voru með úr vöggunni og rassskelltu það, smáhröktu svo og hrintu því á undan sér. Við það stækkaði karl þeirra óðum aftur þangað til hann varð eins og hann var upphaflega; hélt hann svo með þeim upp í fjall og hurfu þau þar öll.