Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Bergþór Bláfellingur

Úr Wikiheimild

Bergþór Þórálfsson bróðir Þóris í Þórisdal bjó í Bláfelli fyrir ofan Biskupstungur. Hann var alþekktur þar um Tungurnar, því hann gekk þar oft um byggðina, en gjörði engum manni mein. Svo er sagt að hann kom einu sinni að Bergsstöðum í Tungunni eystri. Hann fann húsfreyju fyrir austan túnjaðar og bað hana gefa sér að drekka. Hún fór heim og sótti drykk handa honum, en meðan hún var í burtu klappaði Bergþór holu eða ker í berg sem er þar við túnjaðarinn, en það er ekki lengra frá bænum en fáeinir faðmar; svo er túnið lítið til austurs. Síðan kom hún með drykkinn, og drakk Bergþór og sagði síðan: „Þú og þínir eftirkomendur munu bera sýru sína í ker þetta. Mun ekki þurfa hlemm þar yfir því ég mæli svo fyrir að aldrei skal á það ís leggja, og þó í það rigni skal vatnið fljóta ofan á sýrunni, og ekki mun hér skorta sýru meðan kerið er brúkað.“ Eftir það fór hann burt. Ker þetta er enn nú brúkað fyrir sýruílát á Bergsstöðum og aldrei byrgt; frýs aldrei þar á og þó í það rigni flýtur vatnið ofan á og má ausa það ofan af. Kerið tekur nærfellt fjórar tunnur og nær jafnan saman sýra í því ár frá ári og skemmist aldrei. Svo hafa sagt kunnugir menn.

Þegar Bergþór vissi að hann átti skammt eftir ólifað fann hann byggðamenn og vísaði þeim til hellis síns og bað þá sjá svo til að þangað yrði farið á þeim tíma sem hann tiltók sjálfur. Þá sagðist hann mundi verða dauður. Bað hann taka lík sitt og flytja til Skálholts og jarða þar. Hann tiltók nákvæmlega þann stað er hann vildi liggja, það er undir kirkjugarðshorni utan til. Sagði hann sér segði svo hugur að þar eftir mundi koma siðaskipti og mundi verða kirkja gjör í Skálholti og mikil helgi mundi þar verða. „Ketill stendur í helli mínum,“ sagði hann, „er ég gef kirkjunni sem byggð verður í Skálholti, en það sem í katlinum er skulu þeir eiga sem mig flytja og jarða.“ Og síðan fór hann aftur í fjallið. Menn gjörðu sem Bergþór bað, sóttu lík hans þá hann var dauður og fluttu til Skálholts og grófu. Þegar þeir tóku lokið af katlinum var hann fullur af rjúpnalaufi. Þeir hvolfdu því niður og þóttust ekki vita hvaða gagn væri að hirða það, en einn fyllti þó báða vettlinga sína og fór heim með það, en þegar hann fór að skoða voru þetta gullpeningar. Þegar hinir fréttu þetta fóru þeir aftur og vildu sækja rjúpnalaufin sem þeir höfðu fleygt, en fundu þau ekki og höfðu svo búið. Ketill Bergþórs var af eiri með höldu, loki og stút sem kaffekatlar eru nú; hann tók tólf fjórðunga. Svo sagði Gunnhildur Jónsdóttir, gömul og margfróð og ólygin, að foreldrar hennar sáu ketilinn í Skálholti á dögum Finns biskups.