Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Björn Ólafsson í Málmey

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Björn Ólafsson í Málmey

Snemma á þessari öld var uppi maður sá sem hét Björn Ólafsson († c. 1840). Hann bjó í Málmey og víðar. Hann var afreksmaður mikill og skipasmiður góður. Sagt er hann hafi haft ægishjálm í augum. Björn þessi smíðaði fjölda af skipum og bátum. Vandaði hann mjög að því bæði efni og verk. Það sagði hann að ætíð þegar hann var búinn með eitthvert skip kom sami huldumaðurinn í hvert sinn, gekk í kringum skipið og gáði grannt að öllu, en snerti aldrei á neinu nema eitt sinn. Björn var þá nýbúinn að smíða byttu. Kom þá huldumaðurinn eins og vant var að gá að smíðinu; gekk hann í kringum byttuna og réttir hönd til hennar og tekur utan um eina röng. Síðan gekk hann burtu. Björn þóktist vita að huldumanninum mundi eitthvað þykja að rönginni, og fór nú að gá að smíði sínu og gætir grandgæfilega að rönginni; getur hann ekkert smíðalýti eða neina galla fundið þar við og lætur hana svo óáhrærða. En svo vildi til að af byttu þessari drukknuðu tveir menn, en af engu öðru skipi sem Björn hafði smíðað drukknaði neinn maður. Þóktist þá Björn sjá hvað huldumanninum þókti að rönginni og að í henni hefði verið manndrápaviður.

Á Snæfellsnesi heyrði ég menn höfðu mikinn átrúnað á viðavali í skip. Sum skip áttu að sökkva, sum að fjúka, af sumum að drukkna, sum að afla vel, sum illa, eftir viðum þeim sem í skipinu voru, en sögur um það man ég nú engar.