Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Bjargbúi í kolskógi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Bjargbúi í kolskógi

Maður var eitt sinn sem haldinn var skyggn, í kolskógi með öðrum manni um hausttíma inn til fjalla langt frá bæjum. Eitt kvöldið sem þeir voru að kola og voru því sem nærri búnir þá var þessi skyggni að ljúka við að brenna gröf, en hinn maðurinn gekk lítinn veg í burtu nálægt gili einu og fór að leggja upp utan á pokana, en orðið dimmt. Þegar hann er að leggja upp þá finnst honum so leiðinlegt og ekki frítt við að drægi úr honum aflið, en var þó kyrr. Hinn maðurinn kemur þá til hans og spyr hvörnin honum líði. Hinn lætur ekkert illa yfir því, en á leiðinni heim þá spyr þessi hinn skyggna hvört hann hafi séð nokkuð um kvöldið. Hann segir þá að það hafi komið kall ofan með gilinu í skinnpeysu og farið þar nálægt sem maðurinn var. Hann hefði átt að segja að það hefði ekki verið tröll, heldur hefði það verið einhvör bjargbúi.