Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Bjargvígslur ýmsar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Bjargvígslur ýmsar

Allt til skamms tíma var illur andi í helli einum í Grímsey. Þegar menn sigu þar í bergið eftir fugli kom grá hönd og loðin út úr berginu sem skar á festina og drap með því sigmenn. Seinast vígði séra Páll Tómásson, sem nú er prestur á Knappsstöðum í Stíflu, bergið eftir því sem Grímseyingar sögðu. En séra Páll hafði tekið eftir því að hvassar brúnir stóðu fram úr bergi þessu sem vaðirnir skárust á; lét hann því Grímseyinga vaðbera sig og seig í bergið, en stakk hamri í bjargúlpu sína áður en hann fór ofan svo eyjarskeggjar sáu ekki. En á meðan hann væri niðri í berginu skipaði hann þeim að syngja sálma svo hátt sem þeir gætu og láta aldrei hlé á verða þangað til hann gæfi þeim merki að draga sig upp. Af þessari tilhögun trúðu eyjarbúar því að Páll prestur hefði vígt bergið er hann lét þá syngja til þess þeir skyldu síður heyra meðan hann molaði með hamrinum hvössu brúnirnar úr berginu, en síðan hafa menn ekki farizt þar úr sigum.

Slíkar sögur um bjargvígslur voru alltíðar hér áður meðan þeir Þorlákur biskup helgi og Guðmundur biskup góði voru uppi. Þorlákur biskup átti að hafa vígt ýms fuglberg og hreinsað þaðan óhreina anda. Þegar hann vígði Látrabjarg fyrir vestan heyrði hann rödd úr berginu er sagði: „Einhvers staðar verða vondir að vera.“ Þá lét biskup lítinn hluta bergsins eftir óvígðan og þorir enginn síðan að síga þar. Þó gjörði fífldjarfur maður það einu sinni. Kom þá grá hönd úr berginu og skar á festina og var það bráður bani mannsins. Þó segja aðrir að það hafi verið Guðmundur biskup er vígði Látrabjarg þegar hann hafi verið á hrakningum sínum vestra, og er hann hafi verið langt kominn að vígja það hafi verið sagt í bjarginu: „Ég bið þig, biskup, að fara ei lengra því undan bænum þínum og aðgjörðum verðum vér að flýja, en einhvers staðar verða vondir að vera.“ Er þá sagt að biskup hafi hætt að vígja bjargið og því hafi það verið vani hans eftir það er hann vígði fuglberg að láta nokkurn hluta þeirra óvígðan. Þeir hlutar fuglbjarga er sagt er að séu óvígðir eru kallaðir „heiðnaberg“ og koma þau nöfn víða fyrir þar sem eins stendur [á], t. d. í Elliðaey á Breiðafirði í Helgafellssókn. Á þeirri ey er fuglberg á tvo vegu og er hið efsta bjargsins er veit móti landnorðri kallað „Heiðnaberg“; er þar illt í að síga og aldrei gjört. Þann hluta bjargsins hafði Guðmundur biskup ekki vígt af því hann ætlaði hann landvættum eða álfum til íbúðar ef þeir væru þar. Heiðnaberg heitir og milli Búðardals og Fagradals fyrir vestan og búa þar að vísu álfar en ekki tröll.