Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Bjarni Pétursson og álfar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Bjarni Pétursson og álfar

Þegar Bjarni Pétursson er síðar bjó að Skarði var á unga aldri var hann samtíða pilti nokkrum er hafði miklar samgöngur við álfafólk og fór oft um kvöldtíma burtu frá bænum. Bjarni bað hann einu sinni að lofa sér að fylgjast með honum; hét hann því með þeim skilmála að hann gengi ekki í álfhólinn á eftir sér, og hét hann því. Síðan fóru þeir að heiman og gengu unz þeir komu að hól nokkrum langt frá bænum. Þá laukst upp hóllinn þegar; gekk pilturinn þar inn og Bjarni á eftir. Þeir sáu þar konu skrautbúna er fagnaði vel piltinum og lagði hann í sæng hjá sér. En litlu seinna vísaði hún Bjarna til rúms á öðrum stað og bað hann að bregðast ekki ókunnuglega við þótt nokkuð kæmi í hvílu hjá honum. Síðan leggst Bjarni í rekkjuna og skömmu eftir kemur að hvílu hans ófrýnleg kvensnift er Bjarna þótti líkara skrímsli en konu. Hún vildi komast upp í rúmið og er hún var á hálfa leið komin hratt Bjarni henni svo óþyrmilega út úr hvílunni að hún skaddaðist við fallið. En skrímsl þetta er Bjarna sýndist svo átti að hafa verið dóttir álfkonunnar er leysast skyldi úr álögum með því að hvíla hjá mennskum manni. Síðan bjuggust þeir brott úr hólnum pilturinn og Bjarni og sagði þá álfkonan við Bjarna að skilnaði að hann væri mikillar hefndar verður bæði fyrir forvitni sína og misþyrmingu dóttur sinnar, en hún kvaðst það á hann leggja að hann skyldi verða hinn mesti óeirðarmaður um kvennafar og allt hans afkvæmi fram í 5. lið (sumir segja 9. lið), og er mælt það yrði að áhrínsorðum.