Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Bláa glasið

Úr Wikiheimild

Benidikt hét prestur í Aðalvík á Hornströndum sem síðar fluttist að Einholti á Mýrum. Hefur Kristín dóttir hans sagt eftirfylgjandi sögu eftir eigin sögusögn föðurs síns sjálfs. En Kristín hefur aftur sagt (orðin þá mjög gömul) skynsömum nútíðarmanni þessa sögu sem nú segir:

Um vorið þegar þau fluttu að Einholti var Kristín á sjötta árinu. Þau fóru norðanlands og hafði prestur marga hesta með áburði, og er þau komu norður í landið hagaði svo leið að þar þurfti lestin að fara út fyrir háls einn, en prestur nennti ekki að ríða sama veg, heldur reið þvert yfir um einhestis; og sem hann hafði riðið spölkorn eftir hálsinum með litlum læk sér hann hinumegin læksins bæ og dettur til hugar að skreppa heim að fá sér ögn í staupinu, því hann þótti drykkfelldur. Og sem hann kemur á hlaðið klappar hann á dyr. Þar kemur út kona lagleg ásýndum. Hann spyr hana nafns; hún kveðst heita Signý. Hann biður gefa sér að drekka; hún færir honum trébarða mjólk (skekna) í pottkönnu. En sem hann atlar að kveðja konuna biður hann hana að láta nú sjá og gefa sér ögn af brennuvíni; hún gengur inn og kemur aftur með blátt pelaglas fullt af víni. Prestur þakkar þessa gjöf innilega konunni því hún gaf honum glasið með öllu, en það var ei gjört sem önnur glös, það var með stórum bólum alsett og í hverri bólu var tígulmyndað glerlauf og lék þar á þolinmóð svo þegar maður hrærði glasið léku öll þessi lauf á glasinu. Og sem prestur hefur nú kvatt konuna heldur hann leiðar sinnar austur af hálsinum. Er þá lest hans komin þar að bænum og farin að hvíla. Prestur er nú orðinn hýr af víninu og segir fólkinu á bænum frá gjöf Signýjar, konunnar þar upp á hálsinum. Það fer að hlæja að presti og sveia úr honum heimskunni, en hann sver og sárt við leggur að þar standi bær og þar búi kona. En fólkið narrar hann því meir og rengir sögu hans. Þá sýnir prestur glasið og biður það nú að þræta fyrir það hann hafi sagt, en allir undruðust glasið og tilbúning þess. Samt segir það presti í fullri alvöru að þar sé engin byggð og enginn bær til, en prestur kveðst aldrei trúa því. Og við það hélt hann áfram leiðar sinnar að Einholti og var þar lengi prestur, en eitt sinn braut hann sitt góða glas á Almannaskarði, þá mjög víndrukkinn, en kom þó með það heim og tók Kristín dóttir hans brotin og varðveitti eitt af þeim sína tíð. Og hjá henni sáu þeir menn brotið sem oss hafa sagt þessa sögu.