Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Bláa ullin

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Fyrir mörgum árum bjó sá maður að Skeggsstöðum í Svartárdal er Þorkell hét. Hann átti konu þá sem Rósa er nefnd. Einu sinni gekk Rósa að fé um vor með vinnumanni þeim er Jónas hét. Fjall er bratt fyrir ofan bæinn, en gil nokkurt gengur ofan eftir því fyrir utan bæinn. Rósa og Jónas gengu upp með gilinu, og er þau voru komin alllangt upp í fjallið sáu þau flekk af blárri ull er auðsjáanlega var breidd til þerris. Jónas vildi þegar taka ullina, en hún vildi það eigi og kvað nógan tíma til að taka hana er þau kæmi aftur; og varð það úr. Settu þau vel á sig hvar ullin var. En þegar þau komu þangað seinna um daginn var ullin horfin með öllu. Sögðu þau þegar frá þessu er þau komu heim og vissu menn fyrir víst að þar var eigi ull þvegin af öðrum bæjum.